Tæki hálfa öld að útrýma einbreiðum brúm

19.09.2016 - 23:10
Mynd með færslu
 Mynd:
Næstum hálfa öld tæki að útrýma einbreiðum brúm á hringveginum miðað við áætluð fjárframlög næstu ár. Forstöðumaður hjá Vegagerðinni segir þetta koma óþægilega á óvart.

Á hringveginum eru enn 39 einbreiðar brýr, arfur gamalla tíma, langflestar á Suðausturlandi. Skeiðarárbrú er langlengst, en útlit er fyrir að ný tvíbreið brú verði tekin í notkun þar á næstu misserum. Þá hverfa fjórar einbreiðar brýr í nágrenni Djúpavogs og Hornafjarðar með nýjum vegum sem eru á fjögurra ára samgönguáætlun sem nú liggur fyrir Alþingi.

Þá eru eftir 34 einbreiðar brýr. Síðustu ár hefur 100 milljónum króna verið veitt á ári í að skipta út einbreiðum brúm. Á næsta ári er áætlað að þrefalda þetta framlag, en það dugar þó skammt. Vegagerðin reiknaði út hversu langan tíma tæki að útrýma einbreiðum brúm á hringveginum, miðað við 300 milljóna árlegt framlag. Niðurstaðan er 48 ár.

Óskar Örn Jónsson, forstöðumaður framkvæmdadeildar Vegagerðarinnar, segir að þetta komi óþægilega á óvart „Okkur finnst þetta of langur tími. Okkur er mikið í mun að útrýma þessum einbreiðu brúm.“

Óskar segir að ef gæta eigi fyllsta öryggis verði að ljúka þessu. „Og hálf öld er ansi langur tími,“ segir hann.

Þá eru ótaldar einbreiðar brýr utan hringvegarins sem eru mun fleiri en brýrnar á hringveginum. „En þar kemur inn í heildarmyndin. Það er sums staðar hægt að setja ræsi og finna betri veglínur, en verkefnin eru ærin og okkur finnst eins og samfélagið þurfi kannski að gera upp við sig hvernig þessu máli skuli háttað, en við myndum sannarlega taka á þessum málum á mun skemmri tíma.“

 

tryggvia's picture
Tryggvi Aðalbjörnsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi