Systur verði náðaðar vegna heimilisofbeldis

25.08.2019 - 11:46
Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons - http://www.marines.mil/unit/29pa
Fleiri en 300 þúsund hafa skrifað undir áskorun til rússneskra sjórnvalda um að láta lausar úr haldi þrjár systur sem ákærðar eru fyrir að hafa myrt föður sinn. Málið hefur beint kastljósinu að heimilisofbeldi í Rússlandi.

Það var í júlí í fyrra sem Mikhail Khachaturyan fannst látinn á heimili sínu í norðurhluta Moskvu. Hann hafði verið stunginn margsinnis. Dætur hans þrjár, 17, 18 og 19 ára, hringdu í lögregluna en voru svo handteknar á staðnum grunaðar um að hafa banað föður sínum. Þær hafa aldrei þrætt fyrir það að hafa myrt pabba sinn, og gætu átt yfir höfð sér allt að tuttugu ára fangelsi verði þær sakfelldar. 

En nú hafa fleiri en 300 þúsund skrifað undir áskorun um að systrunum verði sleppt úr haldi. 

Málið hefur nefnilega beint kastljósinu að heimilisofbeldi í Rússlandi, en Khachaturyan beitti dætur sínar grófu líkamlegu, andlegu og kynferðislegu ofbeldi. 

Samkvæmt nýlegri samantekt Mannréttindavaktarinnar eru um 14 þúsund konur myrtar árlega á heimilum sínum i Rússlandi, það eru tæplega 40 konur á dag.

Ástandið batnaði síst árið 2017 þegar lögum í Rússlandi var breytt svo þau sem beita heimilisofbeldi þurfa einungis að greiða sekt, að því gefnu að fórnarlamb ofbeldisins þurfi ekki að leggjast inn á spítala. 

Þá horfir rússneska lögregla gjarnan í gegnum fingur sér þegar heimilisofbeldi er annars vegar, því það er alla jafna talið einkamál fjölskyldunnar. 

 

Birta Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi