Systir Sigmundar Davíðs sest á þing

18.06.2019 - 11:01
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV/ISAVIA - Samsett mynd
Nanna Margrét Gunnlaugsdóttir tekur sæti á Alþingi í dag þegar þingfundur hefst klukkan 13.30. Hún er varamaður fyrir Gunnar Braga Sveinsson, þingflokksformann Miðflokksins, sem er á fundum erlendis á vegum þingsins. Svo vill til að um þriðja varamann Gunnars Braga í kjördæminu er að ræða en hinir voru uppteknir. Nanna Margrét er systir Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar formanns Miðflokksins.

Hún hefur ekki áður tekið sæti á Alþingi og verður því kjörbréf hennar rannsakað og svo mun hún undirrita drengskaparheit að stjórnarskránni. Nokkur dæmi eru um að systkini hafi setið samtímis á Alþingi. Þau Björn Bjarnason og Valgerður Bjarnadóttir voru aðalmenn á sama tíma, hann fyrir Sjálfstæðisflokk og hún fyrir Samfylkingu, og um tíma sátu saman á Alþingi sem aðalmenn þau Ingibjörg Pálmadóttir og Ísólfur Gylfi Pálmason, bæði fyrir Framsóknarflokk.

johannav's picture
Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi