Sýrlenskir flóttamenn sendir frá Istanbul

05.01.2020 - 03:58
Mynd með færslu
 Mynd: Moyan Brenn - Flickr
Nærri 100 þúsund Sýrlendingar voru fluttir frá Istanbúl í fyrra samkvæmt áætlun þarlendra stjórnvalda. Að sögn skrifstofu borgarstjóra Istanbúl eru óskráðir flóttamenn frá Sýrlandi færðir í flóttamannabúiðr utan borgarinnar.

Að sögn Deutsche Welle er aðgerðinni beint gegn flóttamönnum sem skráðu sig fyrst annars staðar í Tyrklandi. Sérfræðingar telja að um 300 þúsund Sýrlendingar geti verið færðir samkvæmt þessum reglum. 

Mannréttindasamtök og góðgerðafélög telja suma Sýrlendingana sem eru fluttir úr Istanbúl vera senda aftur til átakasvæða í Sýrlandi. Tyrknesk stjórnvöld neita því að sú sé raunin.

Talið er að um 3,6 milljónir sýrlenskra flóttamanna hafi fengið tímabundna vernd í Tyrklandi. Yfir hálf milljón er skráð í Istanbúl. Tyrkir gerðu samning við Evrópusambandið árið 2016 um að koma í veg fyrir að sýrlenskir flóttamenn færu þaðan inn til annarra Evrópuríkja gegn milljarða evra greiðslu frá Evrópusambandinu. Tyrkir vilja semja upp á nýtt við Evrópusambandið í ljósi mikillar aukningar flóttamanna í landinu og hafa hótað því að leyfa flóttamönnum að halda af landi brott inn til Evrópu.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV