Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Sýnir hop jökla með nýrri þrívíddartækni

17.11.2019 - 15:45
Mynd: Landmælingar/Kieran Baxter / Hoffellsjökull 1982
Í nágrenni Hafnar í Hornafirði er einstök aðstaða til að sýna bráðnun jökla og þangað koma vísindamenn og listamenn til að verða vitni að áhrifum hlýnandi loftslags. Á málþingi þar á föstudag var meðal annars sýnd ný tækni til að breyta gömlum loftmyndum af jöklum í þrívíddarmyndir til samanburðar við nýjar drónamyndir. Þar var líka ljóðlist um möguleg endalok Vatnajökuls.

Kieran Baxter er doktor í þrívíddartækni við Háskólann í Dundee í Skotlandi. Hann hefur undanfarið búið til myndbönd úr ljósmyndum og gögnum frá Landmælingum til að sýna hvernig jöklar á Íslandi hafa hopað síðustu áratugi. „Við notum ljósmyndir frá níunda áratugnum frá Landmælingum til að búa til þrívíddarlíkön í hárri upplausn sem við getum borið saman við nýjar drónamyndir. Við sjáum miklar breytingar í hæð íshettunnar en líka að jöklarnir eru leystir upp af lónunum við jökulsporðinn,“ segir Kieran.

Verkefnið er í samvinnu við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Hornafirði. „Hér á Höfn er stutt í jöklana og við höfum þá fyrir augum daglega. Þeir eru mjög aðgengilegir, miklu aðgengilegri heldur en jöklar víða um heim. Þetta hefur gert það að verkum að það er stór hópur fólks, fræðimenn, listamenn, ljósmyndarar og fréttamenn sem koma hingað til þess að fylgjast með bráðnun jökla og þar með til að upplifa einhverja skýrustu birtingarmynd hamfarahlýnunar,“ segir Þorvarður Árnason, náttúrufræðingur hjá Rannsóknarsetri Háskóla Íslands á Hornafirði.

Fjallar um hverfandi Vatnajökul í nýrri ljóðabók

Ein þeirra sem hafa nýtt jökulinn í táknheim sinn er Steinunn Sigurðardóttir skáld. Hún fagnaði 50 ára ferli í Nýheimum á Höfn og nýju ljóðabókinni Dimmumótum sem fjallar um Vatnajökul hverfandi.

„Þegar ég var lítil og lengi fram eftir þá voru jöklarnir táknmynd eilífðarinnar eins og má sjá í bókmenntum okkar, eins og í Heimsljósi og hvað þeir voru tignaðir af skáldunum okkar, ljóðskáldum og öðrum. Engan hefði órað fyrir því að þeir gætu átt eftir að breytast í táknmynd hverfulleikans; að nú séu þeir á undanhaldi og jafnvel að hverfa alveg. Og mér finnst þetta breyta mynd okkar af tímanum,“ segir Steinunn og les fyrir okkur ljóðið Dimmumót úr samnefndri, nýútkominni ljóðabók sinni. Þar líkir hún tímanum við „dægravillt gamalmenni“ sem staulast um í landslaginu sem hverfandi jöklarnir skilja eftir sig. Í bókinni er líka að finna kafla með röddum eða lýsingum fólks úr Austur-Skaftafellssýslu. Þar birtist upplifun þess af návíginu við jökulinn.

Horfa á fréttatíma