Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Sýndarveruleiki og framtíð tölvuleikja

Mynd: Bradley Hook 2016 / pexels.com

Sýndarveruleiki og framtíð tölvuleikja

29.03.2020 - 08:48

Höfundar

Bjarki Þór Jónsson rýnir í framtíð tölvuleikja. „Með sýndarveruleikabúnaði getur spilarinn á einu augnabliki yfirgefið raunheima og birst í stafrænum leikjaheimi. Hann er innan leikjaheimsins, hvert sem litið er, og ef leikurinn og sýndaveruleikabúnaðurinn er vandaður er auðvelt að gleyma stað og stund.“

Bjarki Þór Jónsson skrifar:

Hröð þróun hefur einkennt heim tölvuleikja frá upphafi. Hver áratugur hefur fært okkur fullkomnari grafík, hljóð og ýmiss konar tækninýjungar. Í þessum pistli ætla ég að rýna í framtíð tölvuleikja og taka fyrir þrjár nýjungar sem ég tel að muni hafa mikil áhrif á tölvuleikjaheiminn næsta áratuginn.

Fyrsta atriðið sem ég vil nefna er styttri biðtími. Með nýjum og öflugri vélbúnaði á tíminn sem það tekur að hlaða inn tölvuleik eftir að styttast til muna. Þetta hljómar kannski ekki eins og eitthvað sem skiptir miklu máli, en mun þó stórbæta upplifun tölvuleikjaspilara. Þeir sem spila nýjustu stórleikina kannast eflaust við hvað það getur farið mikill tími í að hlaða leik fyrir spilun.

Tökum sem dæmi að ef mig langar að spila tölvuleikinn Red Dead Redemption 2 á PlayStation 4 þarf ég að byrja á því að ræsa tölvuna, sem tekur um 20 sekúndur. Eftir að hafa valið Red Dead Redemption 2 tölvuleikinn á leikjalistanum mínum tekur það tölvuna um 40 sekúndur að forhlaða leiknum. Þar á eftir smelli ég á “hefja leik” og þá tekur við hleðslutími upp á eina og hálfa mínútu. Að þeim tíma loknum get ég fyrst byrjað að spila leikinn. Ef söguhetjan deyr, sem gerist reglulega, þá tekur það tölvuna einnig tíma að hlaða leiknum aftur og á meðan þarf spilarinn að bíða. Þessi langa bið getur haft mikil áhrif á flæði leiksins og þar með upplifun spilarans. Þrátt fyrir góðan leik getur ítrekað of langur biðtími hreinlega dregið leikinn niður. Líkt og að horfa á góða kvikmynd sem væri stöðvuð í um mínútu af og til út alla myndina eða spennandi bók sem myndi krefja lesandann um að leggja hana frá sér af og til meðan á lestri stendur.

Níunda kynslóð leikjatölva frá tæknirisunum Microsoft og Sony eru væntanlegar í verslanir seint á þessu ári. Microsoft gefur þá út Xbox Series X leikjatölvuna og Sony PlayStation 5. Bæði fyrirtækin hafa birt upplýsingar um vélbúnað tölvanna. Þar kemur meðal annars fram að tölvurnar eiga að vera margfalt harðvirkari og getur ein sekúnda eða jafnvel nokkur sekúndubrot dugað til að hlaða inn stórleik, sem í dag tekur margfalt lengri tíma. Enginn vafi leikur á að þessi hraði stórbætir upplifun þeirra sem spila svokallaða AAA-leiki á leikjatölvum.

Margt bendir til þess að sýndarveruleiki nái auknum vinsældum næstu árin. Tæknin er vissulega ekki ný en ýmsir þættir hafa hindrað almennar vinsældir sýndarveruleika til þessa. Búnaðurinn er dýr, gæðin mismikil og það getur verið flókið og tímafrekt að setja upp nauðsynlegan búnað. Á komandi árum má gera ráð fyrir því að tækniþróun, lægra verð og notendavænni umgjörð geri sýndarveruleika að raunverulegum kosti fyrir hinn almenna tölvuleikjaspilara.

Það getur verið erfitt að lýsa hágæða sýndarveruleika fyrir þeim sem ekki hefur kynnst þeirri einstöku upplifun. Með sýndarveruleikabúnaði getur spilarinn á einu augnabliki yfirgefið raunheima og birst í stafrænum leikjaheimi. Hann er innan leikjaheimsins, hvert sem litið er, og ef leikurinn og sýndaveruleikabúnaðurinn er vandaður er auðvelt að gleyma stað og stund. Með sýndarveruleikabúnaði er til dæmis hægt að klífa Everest-fjall í Everest VR, fljúga geimflaug í EVE Valkyrie, keppa í framtíðaríþrótt í Sparc og gerst tilraunaglaður galdrakarl í Waltz of the Wizard. Til gamans má geta þess að allir leikir og upplifanir sem hér voru nefndar eru framleiddar af íslenskum leikjafyrirtækjum.

Sýndarveruleikatæknin tengist fleiri sviðum en tölvuleikjum. Til dæmis er hægt að horfa á kvikmyndir í sýndarveruleikabúnaði, þar sem áhorfandinn stjórnar því í hvaða átt hann horfir og hvert hann beinir athygli sinni. Einnig eru til skapandi verkfæri sem gera notendum búnaðarins kleift að skapa sitt eigið listaverk í gegnum sýndarveruleika. Söfn hafa sum hver tekið upp á því að bjóða fólki að skoða verk sín og fræðast um þau í gegnum sýndarveruleika . Þetta er aðeins brot af þeim fjölmörgu möguleikum sem sýndarveruleikinn hefur upp á að bjóða.

Nýlega kom þráðlaus sýndarveruleikabúnaður á markað en yfirleitt þarf að tengja slíkan búnað við tölvu og jafnvel nokkra skynjara. Þráðlausi búnaðurinn er vissulega notendavænni, en aftur á móti er hann enn heldur dýr og gæðin takmörkuð. Ég hef trú á því að á nýjum áratug nái allt að smella saman og mögulega verður það eðlilegur hluti af daglegri rútínu að tengja sig við sýndarveruleikabúnað og hitta skólafélaga, vinnufélaga, fjölskyldu eða vini til að læra, vinna, spila og spjalla saman. Þetta væri aldeilis góður kostur í núverandi ástandi þar sem samkomubann ríkir vegna kórónuveirunnar.

Þó svo að úrval tölvuleikja fyrir sýndarveruleika sé nú þegar nokkuð fjölbreytt vantar fleiri stóra titla sem fá fleiri tölvuleikjaspilara til að fjárfesta í sýndarveruleikabúnaði. Vonir eru bundnar við að sýndarveruleikatölvuleikurinn Half-Life: Alyx muni laða til sín nýja notendur. Leikurinn er nýr kafli í mjög vinsælli tölvuleikjaseríu sem legið hefur í dvala í um þrettán ár.

Þriðja og síðasta atriðið sem ég ætla að nefna á þessum lista eru streymisveitur. Líkt og snjallsímar löðuðu til sín nýjan hóp tölvuleikjaspilara eiga streymisveitur eftir að auka aðgengi almennings að stóru leikjuatitlunum til muna. Til að spila nýjustu stórleikina í dag er nauðsynlegt að hafa aðgang að tölvu með vélbúnað sem ræður vel við leikina. Vélbúnaðarkröfur tölvuleikja eru stöðugt að uppfærast sem þýðir að til að spila nýjustu leikina hverju sinni er nauðsynlegt að uppfæra vélbúnaðinn með reglulegu millibili, og því fylgir töluverður kostnaður.

Með streymisveitum verður hægt að spila nýjustu leikina beint í gegnum netið. Í raun er þá verið að spila tölvuleikina á tölvu hjá þjónustuaðila sem streymir gögnum til spilarans á miklum hraða. Með þessari tækni er hægt að spila nýjustu stórleikina í gegnum síma og önnur tæki. Google og Microsoft eru meðal þeirra fyrirtækja sem hafa verið að þróa slíkar leikjastreymisveitur en helsti ókostur þessarar lausnar í dag er takmarkanir á nethraða. Til að spila tölvuleiki í miklum gæðum í gegnum streymisveitu þarf nethraðinn að vera í hæsta gæðaflokki því annars fer leikurinn að hökta eða myndin verður óskýr. Eflaust mun hraðara net bæta gæðin til muna og þá fyrst gæti þetta orðið að raunverulegum kosti.

Ómögulegt er að spá nákvæmlega til um framtíð tölvuleikja en ef þessi framtíðarspá gengur eftir getur tölvuleikjaspilari framtíðarinnar spilað nánast hvaða leik sem, hvenær sem er. Skellt á sig sýndarveruleikabúnaði án mikillar fyrirhafnar, hitt aðra spilara í rauntíma og heimsótt spennandi stafræna heima í gegnum búnaðinn. Allt þetta í góðu flæði og án teljandi biðtíma. Sjáumst vonandi þar á næstunni.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Stafræn menningarverðmæti framtíðarinnar

Pistlar

Leikir sem fá mann til að hugsa

Menningarefni

Ör þróun á sviði tölvuleikja í hálfa öld