Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Sýnatökupinnarnir frá Össuri virka ekki

25.03.2020 - 10:07
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Rúnar Ingi Garðarsson - RÚV
Sýnatökupinnar sem stoðtækjaframleiðandinn Össur bauð fram til að skima fyrir COVID-19 og hafa verið í prófun hjá Íslenskri erfðagreiningu, virka ekki. Þetta staðfestir Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, upplýsingafulltrúi fyrirtækisins. Hún segir þetta vonbrigði og nú sé verið að bíða eftir öðrum sendingum.

Töluvert færri sýnatökur hafa verið síðustu daga þar sem mjög hefur gengið á birgðir sýnatökupinna. Skortur er á slíkum pinnum um allan heim en þeir eru notaðir til að taka sýni sem síðan eru skimuð fyrir kórónuveirunni.  Sem dæmi má nefna voru aðeins 357 sýni tekin í gær, öll hjá veirufræðideild Landspítalans. 

Á stöðufundi almannavarna í gær kom fram að til væru tæplega 2.000 þúsund pinnar og að von væri á þúsund pinnum að utan. Landspítalinn væri sömuleiðis búinn að panta pinna frá Kína eins og Íslensk erfðagreining sem hefur skimað fyrir sýkingunni.

Þá voru vonir bundnar við að hægt væri að nýta 20 þúsund sýnatökupinna sem voru til á lager hjá Össuri og eru notaðir við samsetningu í framleiðsludeild fyrirtækisins.  Gæðaúttekt var gerð á þeim í vikunni en í  morgun var staðfest að þeir virka ekki.

„Þetta eru vonbrigði,“ segir Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, upplýsingafulltrúi Íslenskrar erfðagreiningar. Nú sé beðið eftir öðrum sendingum frá Kína og því verði að krossa fingur og vona að þær berist til landsins næstu daga.  Rétt er að taka fram að pinnarnir sem nú eru í notkun eru ekki þessir pinnar heldur aðrir sýnatökupinnar sem til eru takmarkaðar birgðir af.

Fréttin hefur verið uppfærð.