Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Sykurskattur mikilvægur fyrir lýðheilsu

24.06.2019 - 20:59
Skjáskot
 Mynd: RÚV
Gert er ráð fyrir því að álagning á sykraða gosdrykki og sælgæti hækki í nýrri aðgerðaáætlun Landlæknisembættisins. Kjartan Hreinn Njálsson, aðstoðarmaður Landlæknis, segir að það sé mikilvægt fyrir lýðheilsu Íslendinga að sykurskatturinn komist í gagnið.

Sykurskatturinn svokallaði hefur verið tekinn upp víða um heim, sums staðar með góðum árangri. Þessi tegund álagningar hefur áður verið reynd hérlendis en þó ekki með þeim hætti sem embætti Landlæknis leggur til nú. Kjartan segir að nýi sykurskatturinn þurfi að hafa áhrif á neytendur eigi hann að bera árangur.

20% álagning líklegri til að skila árangri

„Þegar þetta var reynt síðast hækkuðu sykraðir gosdrykkir einungis um í kringum 5 krónur á lítra og um leið lækkaði súkkulaði í verði þar sem vörugjöldin sem voru fyrir voru hærri en vörugjöldin sem voru lögð á vegna sykurs,“ segir Kjartan. Núna komi þetta til með að breytast.

„Nú er lagt til að hækkunin nemi 20% og það er gert til að neytendur finni fyrir hækkuninni á meðan 5% á sínum tíma gekk engan veginn nógu langt.“ Kjartan segir að dæmin sanni að upplýsing og hvatning sé ekki nóg ein og sér til að minnka sykurneyslu. Neyslustýringin sé liður í því að draga úr sykurneyslu Íslendinga.  Samhliða sykurskattinum þurfi að fylgja lækkun á hollari vörum. Einnig þarf ákveðin vitundarvakning að eiga sér stað í samfélaginu um hvaða áhrif óhófleg sykurneysla hefur á líkama og heilsu fólks.

Það hefur ef til vill ekki reynt nægilega vel á þess aðferð hérlendis. „Í ljósi þess hversu mikil sykurneyslan er hér á landi og hversu alvarlegt lýðheilsumál það er að neyta of mikils sykurs, fyrir samfélagið í heild sinni, þá teljum við að sykurskatturinn sé mjög mikilvægur í þessu langtíma markmiði,“ segir Kjartans. Lýðheilsuvandamál séu langtímamarkmið og vitað sé að það eru engar skyndilausnir í þessum málum.  

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons

Sykurskattur eykur umstang og kostnað

Það eru þó uppi efasemdir um áhrif álagningarinnar. Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, var gestur Morgunútvarpsins þar sem sykurskatturinn var ræddur. Hann sagði að tillagan hræri í kerfi neysluskatta og það lítist félaginu illa á. Undanfarin ár hafi kerfi neysluskatta verið einfaldað og allur matur settur í sama skattþrep. Ef tillaga um nýjan sykurskatt nær fram að ganga eru komin þrjú virðisaukaskattstig sem eykur bæði umstang og kostnað.

Jafnframt ber aðgerðaáætlunin keim af forsjárhyggju. „Þetta er gert af góðum hug og með göfug markmið í huga, eins og að draga úr offitu fólks, en það er svo óskaplega erfitt þegar stjórnvöld eru farin að ákveða fyrir okkur hvað er hollt og hvað er óhollt og breyta verði á hlutum til að stýra neyslu,“ sagði Ólafur og velti upp spurningunni um hvar skuli draga mörkin. „Ef það á að leggja skatta eftir þessu ættu að vera háir skattar á sjónvörpum og lágir á hlaupaskóm."

Ólafur benti einnig á að fyrri tilraun hafi ekki haft nein áhrif. „Gamli sykurskatturinn hafði engin áhrif á neyslu. Niðurstöður úr rannsóknum á sykursköttum víða um heim eru misvísandi og margt bendir til að þeir virki ekki,“ fullyrti hann og benti einnig á að neytendur séu að verða meðvitaðri um eigin heilsu. „Þróunin á markaðnum er þannig að hún er í áttina til meiri hollustu. Á nokkrum árum hefur orðið gífurleg aukning á neyslu í vatnsdrykkjum en neysla á sykurgosi dregist saman.“ Þessi þróun eigi sér stað án sykurskatts.  Ólafur benti einnig á að sykurneysla hafi almennt minnkað en offita haldi samt áfram að aukast.

Íslendingar neyta meiri sykurs en nágrannaþjóðir

Kjartan segir að það sé erfitt að fá almennilegar upplýsingar um sölu gosdrykkja og því sé erfitt að koma með fullyrðingar á borð við þá að sykurneysla sé að minnka á meðan offita aukist. „Þó svo að það sé margt sem horfir til betri vegar í þessum málum þá sýna allar nýlegar kannanir að sykurneysla á Íslandi sé mjög mikil, sú langmesta á Norðurlöndunum,“ segir Kjartan og bendir á að það sama eigi einnig við um offitu. Ef það er þannig að sykurneysla fari minnkandi þá séum við engu að síður sú þjóð á Norðurlöndunum sem neytir mest af sykri og það sé meðal annars tilefnið af því að aðgerðaáætlunin er lögð fram. „Þetta er liður í því að við viljum búa í samfélagi þar sem fólk er hvatt til að taka skynsamlegar ákvarðanir hvað varðar heilsu þeirra, líðan og framtíð.“