Það er alltaf rafmagnað andrúmsloft á fyrsta í Iceland Airwaves, göturnar fyllast af meira töff útlendingum en venjulega, indíkrakkar hlaupandi með hljóðfærin sín í sándtékk, og ómurinn af plötusnúðum og hljómsveitum berst úr öðru hverju kaffihúsi og fatabúð. Á fyrsta kvöldinu eru yfirleitt íslensk bönd í fyrirrúmi og ég plantaði mér í Hafnarhúsið snemma kvölds til að sjá Kæluna miklu fremja sinn frostlegna drungagaldur. Þær hafa fært sig frá hráa ljóðapönkinu sem þær byrjuðu með yfir í hljómborðsdrifna og gotneska nýbylgju, þar sem oddhvassar bassanóturnar keyra lögin áfram. Þær hafa greinilega sjóast mikið á tónleikaferðalögum undanfarin ár, þar sem þeim meðal annars hlotnaðist sá heiður að hita upp fyrir upprunalegu emo-ana í Cure, og voru yfirdrifið öruggar í eigin skinni og spilamennsku.