Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Sykur og svanasöngur Grísalappalísu stóðu upp úr

Mynd: Ásgeir Helgi / Iceland Airwaves

Sykur og svanasöngur Grísalappalísu stóðu upp úr

11.11.2019 - 17:03

Höfundar

21. Iceland Airwaves hátíðin var keyrð í gang síðasta miðvikudagskvöld og fréttaritari Menningarvefsins er búinn að vera á miklu fútti milli hinna ýmsu bara, listasafna og tónleikasala undanfarna daga.

Það er alltaf rafmagnað andrúmsloft á fyrsta í Iceland Airwaves, göturnar fyllast af meira töff útlendingum en venjulega, indíkrakkar hlaupandi með hljóðfærin sín í sándtékk, og ómurinn af plötusnúðum og hljómsveitum berst úr öðru hverju kaffihúsi og fatabúð. Á fyrsta kvöldinu eru yfirleitt íslensk bönd í fyrirrúmi og ég plantaði mér í Hafnarhúsið snemma kvölds til að sjá Kæluna miklu fremja sinn frostlegna drungagaldur. Þær hafa fært sig frá hráa ljóðapönkinu sem þær byrjuðu með yfir í hljómborðsdrifna og gotneska nýbylgju, þar sem oddhvassar bassanóturnar keyra lögin áfram. Þær hafa greinilega sjóast mikið á tónleikaferðalögum undanfarin ár, þar sem þeim meðal annars hlotnaðist sá heiður að hita upp fyrir upprunalegu emo-ana í Cure, og voru yfirdrifið öruggar í eigin skinni og spilamennsku.

Mynd með færslu
 Mynd: Ásgeir Helgi - Iceland Airwaves
Orville Peck í Hafnarhúsinu.

Bandaríski kántrísöngvarinn Orville Peck kom fram í harðkjarna village people-kúrekabúningi, ásamt hljómsveit sem leit út eins og æfing í línudansi. Hann er með rosalega rödd sem er bræðingur af Elvis og Roy Orbison og þegar best lét vakti hann upp sinematískan vestrahljóðheim Lee Hazelwoods og hellti úr skálum trega síns í gegnum trekt yfir áhorfendurna. Þegar verst lét var tónlistin frekar venjulegt kántrírokkhjakk. Hann á nokkur fín lög, sérstaklega er Dead of night góð smíð, og hann átti mjög góð móment, en stundum fannst mér þetta helst til of mikið gimmikk og grímuball. Ég kláraði svo kvöldið á Hard Rokk þar sem Hipsum Haps léku sín grípandi popplög með hnyttnum textum, gríðarlega vel gert og vandað, en ekki alveg minn kaffibolli.

Mynd með færslu
 Mynd: Alexander Matukhno - Iceland Airwaves
Hjaltalín sneru aftur á Airwaves eftir nokkurra ára fjarveru.

Á fimmtudaginn hóf ég för á Gauk á stöng þar sem tónlistarmaðurinn Krassasig var að koma sér fyrir, en það er listamannsnafn Kristins Arnars Sigurðssonar sem var áður í hljómsveitinni Munstur. Hann reiddi fram nettflippað og léttleikandi indípopp þar sem hljómborðsleikarinn Magnús Jóhann fór á kostum. Hjaltalín voru með Airwaves-endurkomu í Listasafninu og spilamennskan var óaðfinnaleg og samsöngur Högna og Sigríðar dýnamískur og lifandi. Þegar brassið datt inn í Letter To […] brosti ég upp í rjáfur og leið bara almennt mjög vel með lífið og tilveruna. Mac DeMarco var stærsta nafnið í erlendu deildinni í ár og sveik engan sem staddur var í Hafnarhúsinu þetta kvöld. Það lak af honum sjarminn í letilega indípoppinu og hljómsveitin hans virkaði eins og bestu vinir hans, töfrarnir á sviðinu voru  áþreifanlegir og til mikillar fyrirmyndar.

Mynd með færslu
 Mynd: Julie Van Den Bergh - Iceland Airwaves
Mac DeMarco stígur léttan dans í ljósadýrðinni á sviðinu í Hafnarhúsinu.

Ég lokaði svo kvöldinu í Gamla bíói sem verður að teljast einn skemmtilegasti tónleikastaður hátíðarinnar, hátt til lofts, hátíðlegur og hlýr gamaldags ballsalur, teppalagður og kósí. Þar voru nokkrir graðir ungir menn með rafmagnsgítara á sviðinu sem kölluðu sig Shame, skosk póstpönksveit af gamla skólanum. Þeir djöfluðust á grúví bassalínum og oddhvössum gítarriffum í anda Gang of Four og rantkenndur raddstíll söngvarans sótti talsvert í Mark E. Smith úr The Fall. Þá fór bassaleikarinn í bókstaflegum kollhnísa um allt sviðið auk þess sem hann hrækti ítrekað á gólfið, meira en lítið hressandi sem það var.

Mynd með færslu
 Mynd: Ásgeir Helgi - Iceland Airwaves
Jakob Frímann og Hermigervill í Gamla bíói.

Á þriðja kvöldi hátíðarinnar mætti ég með fríðu föruneyti í Gamla bíó til að sjá segulinn sjálfan,  frímanninn uppmálaðan, JFM, Jack Magnet, Moggadon, einnig þekktur sem Jakob Frímann Magnússon. Hann var mættur til að leika skrýtihljóðgervlapoppið sem hann gaf út undir heitinu The Magnetics árið 1981, og sér til halds og traust hafði hann einn hæfileikaríkasta raftónlistarmann landsins og helsta sérfræðing í svuntuþeysurum, Sveinbjörn Thorarensen Hermigervil. Dúettinn mætti í hvítum íþróttagöllum í stíl og með alveg eins sólgleraugu með heilu rekkana af 40 ára gömlum hljómborðum og rafhljóðfærum. Þetta var eins og einhver skrýtinn draumur, en Magnetics lögin höfðu þó verið færð í eilítið nútímalegri búning með kröftugri bassatrommu og dansvænum töktum, og kemistrían milli kynslóðanna tveggja á sviðinu var gáskafull og léttleikandi. Þá töldu þeir meira að segja í rafræna diskóútgáfu af Stuðmannaslagaranum Búkalú.

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - Iceland Airwaves
Sykur í Gamla bíói.

Ég hafði heyrt vel látið af úkraínsku rappynjunni Alyona Alyona sem lét bíða eftir sér í kjallaranum á Hard Rock. Þegar sjóið byrjaði svo fannst mér það heldur þunnt, svona bónusútgáfa af Die Antwoord, svo ég hélt aftur í Gamla bíó á Sykur sem eru að fylgja úr vör glænýrri plötu, Já takk, sinni fyrstu í átta ár. Söngkonan Agnes er ekki bara ein besta söngkona landsins heldur hannar hún líka nýja búninga fyrir hverja einustu tónleika Sykurs, sem yfirleitt eru meira eins og skúlptúr heldur en kjóll, í ætt við listræn outfit Grace Jones og Lady Gaga. Í þetta skiptið var hún eins og blanda af anime-teiknimyndafígúru, geimverunni úr 5th Element og fjallkonunni. Lögin af nýju plötunni hljómuðu frábærlega, ekki síst smellurinn Svefneyjar, og allur salurinn hoppskoppaði við gríðarkraftmikið rafpoppið og Agnes fór á kostum í raddfimleikum og rappi. Mögnuð stemmning og fyrstu tónleikar hátíðarinnar þar sem ég hélt í mér að fara á klósettið.

Mynd með færslu
 Mynd: Florian Trykowski - Iceland Airwaves
Hatari í Hafnarhúsinu.

Hatari kom með sitt þaulvana BDSM-leikhús í Hafnarhúsið og mér varð hugsað til þess þegar þeir léku á sínum fyrstu Airwaves-tónleikum fyrir þremur árum. Nú eru þeir komnir með flugelda og risastórt show, og rapparinn Svarti Laxness átti frábæra innkomu. Þýsku teknóbrýnin í Booka Shade voru næstir og héldu ágætis danspartý í Listasafninu en mér þótti samt aðeins skorta upp á kraftinn, auk þess sem ég saknaði nokkurra laga af þeirra frábæru plötu Movements. Ég setti svo lok á föstudagskvöldið með því að sjá rauðhærða synþabangsann Berndsen sem var í miklu stuði og dúndraði út hressilegu 80‘s poppi í Iðnó.

Á laugardagskvöldinu var heldur minna af fólki í bænum vegna þess að margir voru í Valshöllinni þar sem Of Monsters and Men héldu heimkomutónleika. Ég hafði lítinn áhuga á því en var þakklátur þar sem minna var um raðir og vesen í bænum. Bandaríski sálarsöngvarinn Velvet Negroni var eitursvalur á Kex Hostel. Hann er með rödd sem sveiflast frá hrjúfum sandpappír yfir í flauelsmjúka falsettu, og söng yfir fútúríska RogB-takta af mikilli innlifun, og oft vann plötusnúðurinn með raddbreytandi effekta yfir lifandi sönginn. Norska elektrópían Otha mætti með keytarinn sinn á Kex og spilaði dansvænt og hressilegt sett, en Whitney í Listasafninu voru hins rosalega flatt indígítargutl. Free Love héldu mjög gott diskótek í hinum nýja Hressingarskála en helsta takmark laugardagskvöldsins var að sjá það sem því miður voru líklega með síðustu tónleikum Grísalappalísu, einu besta rokkbandi landsins undanfarin ár.

Mynd með færslu
 Mynd: FlorianTrykowski - Iceland Airwaves
Booka Shade í Listasafni Reykjavíkur.

Eða var. Hljómsveitin gaf út sína þriðju breiðskífu í síðastu viku og kom með yfirlýsingu um að hún væri að hætta. Þeir gáfu allt sitt og meira til í tónleikana; rokkaðu þak, veggi og gólfin af stappfullum Iðnó. Það verður að segjast eins og er að Gunnar Ragnarsson er með betri frontmönnum í íslenskri rokksögu, hann er með tvíkynja glimmeraðan kynþokka Bowie og Lou Reed, spígsporandi svægi Mick Jaggers, og óútreiknanleikann og hættuna frá Iggy Pop. Í byrjun tónleikanna henti hann sér skyndilega út í salinn án viðvörunar og synti í gegnum mannhafið langt út í salinn. Það er langt síðan ég sá þá síðast en nýju lögin hljómuðu þaulþétt og svo var mjög gaman að heyra þá taka gamla smelli af Ali og Rökrétt framhald.

Hátíðin eru nokkuð minni í sniðum núna en síðustu ár, sunnudagskvöldið hefur verið skorið niður, og ekki er jafnmikið af erlendum böndum utan skandinavíu og áður. Að þessu sinni fannst mér íslensku sveitirnar Grísalappalísa og Sykur standa upp úr og eiga bestu tónleika hátíðarinnar, en svo var ég líka mjög hrifinn af Mac DeMarco, Velvet Negroni, Jakobi Frímann og Hermigervill.

Tengdar fréttir

Tónlist

Airwaves: Halda í töfrana og rúlla á núllinu

Tónlist

Átta erlend á Airwaves sem alla ættu að kæta

Tónlist

Kökusneið af hversdeginum í draumkenndu móki

Tónlist

Mac Demarco snýr aftur á Iceland Airwaves