Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Sýknaður af kröfu Guðmundar Spartakusar

04.04.2017 - 13:57
Sigmundur Ernir Rúnarsson
 Mynd: Fréttastofa - RÚV
Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað fjölmiðlamanninn Sigmund Erni Rúnarsson í meiðyrðamáli sem Guðmundur Spartakus Ómarsson höfðaði gegn honum. Farið var fram á tvær milljónir í bætur og ómerkingu á níu ummælum sem féllu í miðlinum Hringbraut, þar sem Sigmundur Ernir er dagskrárstjóri.

Ummælin sem Guðmundur Spartakus var ósáttur við snerust um að hann væri talinn valdamikill fíkniefnasmyglari í Suður-Ameríku og sigldi þar „undir fölsku vegabréfsflaggi“.

Fleiri fjölmiðlar fjölluðu um Guðmund Spartakus með svipuðum hætti, og vitnuðu margir hverjir til fjölmiðla í Paragvæ. Ríkisútvarpinu og starfsmönnum fréttastofu þess hefur þegar verið stefnt vegna sinnar umfjöllunar og málaferli gegn fleiri fjölmiðlum hafa verið í burðarliðnum.

„Hræðsla má ekki hafa yfirhöndina“

Sigmundur Ernir var staddur á golfvelli á Spáni þegar fréttastofa náði tali af honum og hafði ekki heyrt af niðurstöðunni en sagðist að vonum ánægður með hana.

„Ég get ekki annað en fagnað þessari niðurstöðu, hún er okkur blaða- og fréttafólki í vil og þar af leiðandi ábyrgu málfrelsi og tjáningarfrelsi. Það er umhugsunarefni fyrir fjölmiðlafólk að málarekstur af þessu tagi hefur færst í vöxt og við þurfum að gæta þess að láta þetta ekki hafa áhrif á okkar fréttaflutning. Hræðsla má ekki hafa yfirhöndina og hvað þá tilburðir til þöggunar,“ segir Sigmundur.

Að sögn Vilhjálms H. Vilhjálmssonar, lögmanns Guðmundar Spartakusar, verður niðurstöðunni áfrýjað til Hæstaréttar.

 

stigurh's picture
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV