SVÞ telja frumvarp ráðherra ekki ganga nógu langt

06.12.2019 - 11:19
Mynd með færslu
 Mynd:
Samtök verslunar og þjónustu telja að frumvarp Þórdísar Kolbrúnar R. Gylfadóttur um að heimilt verði að leggja stjórnvaldssektir á bílaleigur sem verða uppvísar af því að breyta kílómetrastöðu skráningarskylds ökutækis gangi ekki nógu langt. Frumvarpið er lagt fram í framhaldi af því að fréttaskýringaþátturinn Kveikur greindi frá því að Procar bílaleigan hefði átt við kílómetramæla í bílum sínum áður en þeir voru seldir. 

Samtökin telja að eðlilegt hefði verið að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið hefðu sameinast um víðtækari lagabreytingartillögur en endurspeglast í frumvarpinu. 

Samtökin telja þó líklegt að ákvæði frumvarpsins verði til bóta. Hins vegar sé ekki gerð grein fyrir því í frumvarpinu hvernig eftirliti með kílómetrastöðu verður háttað.

Þau benda á að beinlínis sé gert ráð fyrir eftirliti skoðunarstöðva ökutækja með kílómetrastöðu ökumæla í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins. Sú tilskipun hafi verið innleidd í íslenskan rétt í fyrra. Samkvæmt upplýsingum samtakanna hefur skoðunarhandbók ökutækja hins vegar ekki verið uppfærð til samræmis við ákvæði tilskipunarinnar og því hefur eftirlitið ekki komist til framkvæmda. 

„Það er afar brýnt að tryggja að eftirlit með fölsun kílómetrastöðu verði samræmt, það eigi sér stað með atbeina skoðunarstöðva og tryggt verði að skoðunartíðni ökutækja sem eru nýtt í atvinnurekstri taki m.a. mið af því hve mikið þeim er ekið. Að óbreyttu er hætt við að erfitt geti reynst að beita þeim viðurlögum sem lögð eru til í frumvarpinu,“
 

Jón Hákon Halldórsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi