Svona virkar spálíkanið vegna COVID-19 faraldursins

26.03.2020 - 15:00
Mynd: Nature.com / Nature.com
Thor Aspelund, prófessor í líftölfræði, kynnti spálíkanið sem heilbrigðisyfirvöld notast við til að spá fyrir um þróun COVID-19 smita á upplýsingafundi almannavarna og landlæknis í dag. Þar fór hann bæði yfir það hvernig líkanið virkar og hvernig það nýtist til að bregðast við faraldrinum og draga úr honum. Stór hópur kemur að gerð líkansins.

Miðuðu við svartsýnustu spá

Thor benti á sveiflur milli spánna nú þegar búið er að birta þrjár spár opinberlega. Sú fyrsta var há, önnur lág en sú þriðja mitt á milli. Thor sagði að þetta gerðist stundum í vísindum en að eftir því að fram liðu stundir yrðu minni sveiflur á milli spánna.

Thor sagði að mönnum hefði þótt fyrsta spá lág og strax ákveðið að vinna eftir svartsýnustu útgáfu hennar. Fólk hefði ekki talið lága spá ástæðu til að slappa af heldur þvert á móti hefði hún verið hvatning til aðgerða.

Dregið hefur úr vexti útbreiðslunnar sagði Thor. „Ef hann hefði fengið að halda svona áfram óheftur þá væru tilfellin orðin margfalt fleiri í dag en þau eru.” Thor sagði að veldisvöxturinn hefði haldið rétt fram yfir fyrsta samkomubannið. Eftir það hefði tekist að hefta vöxtinn og flytja landsmenn inn á aðra braut. Hann sagði að það yrði vonandi til að dreifingin minnkaði í þjóðfélaginu.

Mynd með færslu
Thor Aspelund ásamt Þórólfi Guðnasyni Mynd: Lögreglan
Thor Aspelund kynnir spálíkanið. Þórólfur Guðnason í bakgrunni

Íslendingar og Færeyingar taka flest sýni

„Meðalaukningin [hér á landi] er með því lægsta í Evrópu og það er mikilvægt að það komi fram. Þessar aðgerðir skipta máli,“ sagði Thor. Hann sagði þetta skipta máli, ekki síst vegna Íslendingar, ásamt Færeyingum, gera mest til að mæla sjúkdóminn. Hann sagði mikla gæfu að sú stefna hefði verið tekin hérlendis.

Thor vísaði til nýrrar erlendrar spár fyrir Ítalíu frá 20. mars. Þar er því spáð að toppnum þar í landi verði náð rétt fyrir páska, líkt og íslenska spáin gerir ráð fyrir hér. Hann sagði að sama spá hefði reynst vel við að spá fyrir um þróunina í Suður-Kóreu afturvirkt.

Gögnin sýna heftan vöxt útbreiðslunnar og að aldursgreining smitaðra sé hagstæð, sagði Thor í lok kynningar sinnar. Hann benti þó á að minnsta breyting yfir í smit eldra fólks myndi leiða til meira álags á heilbrigðiskerfið.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi