Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

„Svona missir fólk vitið“

Mynd: Kiljan / RÚV

„Svona missir fólk vitið“

21.10.2015 - 21:15

Höfundar

„Þetta er það erfiðasta sem ég hef gert,“ segir Jón Gnarr um bókina Útlagann sem er nýkomin út og lýsir unglingsárum hans, veru í héraðsskólanum að Núpi í Dýrafirði, fíkniefnaneyslu og sérstæðri læknisaðgerð sem hann fór í. „Bókin tók yfir líf mitt, ég hugsaði með mér: svona missir fólk vitið.“

Styttri útgáfa viðtalsins birtist í Kiljunni í kvöld, en hér má horfa á það í heild sinni.

Harðneskjulegur heimur

Jón segir frá því að héraðsskólar eins og Núpur hafi verið einkennilegir staðir. Þangað hafi verið sendir þeir sem voru taldir vandræðaunglingar, innan um unglinga úr nágrannasveitum.

Jón segist hafa misst fótanna smátt og smátt eftir barnaskóla og á Núpi hafi öllu endanlega verið kippt undan honum. Þetta hafi verið harður heimur þar sem unglingarnir voru afskiptir og í litlu sambandi við foreldra, fjölskyldur og umheiminn. „Þetta var nánast eins og Lord of the Flies,” segir Jón og vitnar í fræga skáldsögu Williams Golding. Jón treystir sér ekki til að heimsækja Núp aftur. „Það hvolfist yfir mig beygur.“

Jón segir sömuleiðis frá erfiðu sambandi við foreldra sína. „Við áttum mjög sérstakt samband ... Ég var þeim vonbrigði frá upphafi og það var alltaf uppi á borðinu. Það stóð ekkert til að ég yrði til,“ segir Jón. „Þau voru afurð síns bakgrunns, sinnar sögu og þessarar ofsalegu hörku, sem að mér finnst vera svo stór hluti af samfélaginu og þessu landi.“

Hafði ekkert til að lifa fyrir eftir aðgerðina

Læknisaðgerðin sem Jón fór í er kennd við lækni sem nefndist Nesbit og miðar að því að leiðrétta lögun getnaðarlimsins. „Þar er í rauninni skorið undan mér; skorið af mér typpið og sett á aftur.“

Jón, sem var um 16 ára gamall þegar aðgerðin var framkvæmd, segir að hún hafi sennilega verið óþörf. „Eftir það upplifi ég ofboðslega skringilegan doða, áhugaleysi og skort á lífslöngun. Ég hafði ekkert til að lifa fyrir lengur.“ Einna sárast hafi þó verið að hafa engan til að ræða við um aðgerðina. „Ég gat ekki talað um þetta við neinn, það var enginn sem bauð mér upp á það.“