Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Svona halda Íslendingar jólin

08.01.2020 - 17:55
Mynd með færslu
 Mynd: Unsplash
Þjóðarpúls Gallup hefur kannað ýmsa þætti í jólahaldi landsmanna sem gefur góða innsýn í það hvernig Íslendingar halda jólin. Óhætt er að segja að þar kemur ýmsilegt áhugavert í ljós.

Könnunin sýnir til að mynda að Íslendingar eru frekar vanafastir þegar kemur að jólahaldi því litlar breytingar eru í flestum þáttum undanfarin fjögur ár. Undantekningin er þó sú að sending jólakorta með hefðbundnum pósti er á hröðu undanhaldi. Fyrir fjórum árum sendi annar hver Íslendingur jólakort en fyrir síðustu jól var hlutfallið komið niður í 23 prósent.

Einnig má nefna að þeim fjölgar sem nota gervijólatré og þeim fækkar sem föndra og baka smákökur fyrir jólin.

Annars eru jól Íslendinga í grófum dráttum á þessa leið:

 • Nær allir hitta fjölskyldu og/eða vini yfir jólin, eða 98% landsmanna. Þeir sem eru yngri en fertugir eru enn líklegri til þess en þeir sem eldri eru.
 • Að sama skapi gefa nær allir jólagjafir, eða 97% fullorðinna Íslendinga.
 • Um 92% landsmanna eru með jólaseríur eða annað jólaskraut innandyra og sjö af hverjum tíu eru með slíkt utandyra.
 • Flestir eru með jólatré, eða 85%. Nær sex af hverjum tíu eru með gervitré og 28% með lifandi tré. Árið 2010 voru fjórir af hverjum tíu með lifandi tré.
 • Hátt í þrír af hverjum fjórum segjast sjá um, eða taka þátt í, að elda jólamatinn á aðfangadag. Fólk milli fertugs og fimmtugs er líklegast til að koma að matseldinni, en fólk yngra en þrítugt ólíklegast.
 • Tveir af hverjum þremur styrkja góðgerðarmálefni fyrir eða um jólin. Þetta er heldur lægra hlutfall en stundum áður, en á árunum 2010-2016 var það á bilinu 70-76%.
 • Sex af hverjum tíu eru með aðventukrans með fjórum kertum á heimilinu um jólin og um 45% eru með aðventuljós með sjö ljósum. Árið 2010 settu 62% aðventuljós út í glugga en með auknu úrvali jólaljósa virðist sá siður smám saman á undanhaldi. 
 • Hátt í sex af hverjum tíu fara í kirkjugarð að vitja leiðis yfir jólin.
 • Um 57% baka smákökur fyrir jólin. Árið 2010 var hlutfallið 68%.
 • Um 53% senda rafrænt jólakort eða rafræna jólakveðju og um 23% senda jólakort með hefðbundnum pósti. Árið 2010 sendu hins vegar nær þrír af hverjum fjórum jólakort með hefðbundnum pósti svo þeim hefur fækkað mikið síðan þá.
 • Um 52% fullorðinna Íslendinga fara á jólahlaðborð fyrir eða um jólin, nær 45% fara á tónleika og hátt í fjórðungur fer í kirkju. Árið 2010 og árin þar á eftir fór um þriðjungur í kirkju fyrir eða um jólin.
 • Hátt í fjórir af hverjum tíu fullorðnum landsmönnum borða skötu fyrir jólin.
 • Næstum þrír af hverjum tíu fullorðnum Íslendingum mála piparkökur fyrir jólin.
 • Nær 27% skera út og/eða steikja laufabrauð fyrir jólin. 
 • Fjórðungur fullorðinna föndrar fyrir eða um jólin.
 • Hátt í fjórðungur fullorðinna landsmanna fer á jólaball, þ.e. jólatrésskemmtun fyrir börn.
 • Tæplega 8% búa til konfekt fyrir jólin.

 

 

 

 

Magnús Geir Eyjólfsson