Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Svona forðastu fjársvik netglæpamanna

10.09.2019 - 16:17
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Tölvuþrjótar sviku á fjórða hundruð milljóna króna út úr HS Orku eins og kom fram í fréttum í gær. Þetta er langt frá því að vera einu rafrænu fjársvikin. Í fyrra voru tilkynnt til lögreglunnar á höfuborgarsvæðinu 130 tilvik þar sem reynt var að blekkja fólk með því að láta það leggja inn á reikning hjá svikahröppum. En hvernig getur fólk forðast að lenda í klóm netglæpamanna? Lögreglufulltrúi gefur nokkur góð ráð.

Daði Gunnarsson, lögreglufulltrúi í netbrotadeild Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir að lögregla fái margar ábendingar á dag um alls kyns netglæpi eða tilraunir. 

Hann hvetur fólk til þess að grandskoða rafræn samskipti sín og skoða tölvupósta. Til að mynda með því að velja aðgerðina „reply“ eða „svara“ tölvupósti. „Þá er hægt að sjá hvort það breytist netfangið sem er verið að senda á, frá því sem það var upphaflega,“ segir.

Varast gylliboð

„Það er líka mjög mikilvægt að falla ekki fyrir gylliboðum. Það er þannig að ef það hljómar of gott til að vera satt, þá yfirleitt er það það. Við höfum séð fólk lenda í því að það er verið að lofa því ótrúlegri ávöxtun á peningum á netinu. Þá hefur það síðar reynst vera ósatt. Fólk verður að passa sig á því að ef þetta er of auðvelt þá eru yfirleitt svik í gangi,“ segir Daði. 

Vefveiðimenn varasamir

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Þá er til sú gerð netglæpa þar sem þrjóturinn sendir tölvupóst með vefslóð og reynir að fá móttakandann til að smella á slóðina. Þetta kallast veiðipóstar sem er þýðing á enska orðinu „phishing“. Daði segir það algengt að í póstinu sé fólkinu hótað því að reikningi verði lokað verði ekki gripið til aðgerða. 

Fær ekki aðstoð viðskiptabanka við að staðfesta rétt reikningsnúmer

Maður nokkur hafði samband við Fréttastofu RÚV og greindi frá erfiðleikum sínum við að tryggja sig gegn fjársvikum í netheimum. Hann hugðist greiða skólagjöld í erlendum skóla með millifærslu og reyndi að fá aðstoð viðskiptabanka síns við að staðfesta að reikningsnúmer sem hann hafði fengið uppgefið í tölvupósti, væri í raun og sannarlega reikningsnúmer viðkomandi skóla. 

Viðskiptabanki mannsins neitaði hins vegar að útvega staðfestingu og vísaði í persónuverndarlög. Bankinn bauðst til að senda tölvupóst á skólann og áframsenda manninum. „Það var hins vegar óásættanlegt í þessu ferli þar sem ég er einmitt að tryggja það að sá sem svarar mér frá skólanum sé örugglega sá sem hann segist vera en ekki hakkari sem hefur komist inn sem milliliður milli mín og skólans,“ segir maðurinn í tölvupósti til fréttastofu.

Daði hvetur þá sem eru í sömu sporum að hringja í skólann til að reyna að tryggja að þeir séu með rétt reikningsnúmer í höndunum.

Greiðslumátinn skiptir máli

Daði segir dæmi þess að þeim sem hafi greitt með kreditkorti fyrir gistingu sem reynist svo ekki vera sú sem boðinn var, hafi tekist að endurheimta greiðsluna. „Í einhverjum tilvikum þá eru tryggingar þar á bak við,“ segir Daði og bætir við að þetta sé sá greiðslumáti sem hann noti. 

Margar tilkynningar á dag

Daði segir að lögreglunni sé tilkynnt um marga netglæpi eða tilraunir til þeirra á dag. „Við höfum séð mikið af þessum fjárfestingasvikum og vefveiðipóstur. Síðast í gær lét Síminn vita að nafn fyrirtækisins væri notað í svona póstum,“ segir Daði.

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu bárust rúmlega 130 tilkynningar um mál þar sem gefnar voru upp upphæðir, bankareikningarningar o.fl. sem reynt var að blekkja með. Heildarupphæðin sem tapaðist var 130 milljónir króna. Fram kom í fréttum Stöðvar 2 í gær að erlendir netglæpamenn hafa stolið hátt í tveimur milljörðum króna af íslenskum fyrirtækjum á síðustu tveimur árum.