Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Svona er hægt að láta taka sig af vanskilaskrá

07.05.2019 - 17:00
úr umfjöllun Kveiks um smálán
 Mynd: Ingvar Haukur Guðmundsson
Forstöðumaður lögfræðisviðs Creditinfo segir að fólk geti látið taka sig út af vanskilaskrá ef það hreyfir andmælum svo fremi að skuldin hafi ekki farið fyrir dómstóla. Dæmi séu um að smálánaskuldarar hafi verið teknir af vanskilaskrá eftir andmæli þeirra.

Formaður Neytendasamtakanna sagði í fréttum RÚV að ábendingar hefðu borist um fólk sem lent hefði á vanskilaskrá Creditinfo eingöngu vegna smálánaskulda sem beri ólöglega háa vexti.

Sigríður Laufey Jónsdóttir, forstöðumaður Þjónustu- og lögfræðisviðs Creditinfo, segir að fólk geti komist hjá því að vera skráð á vanskilaskrá og látið taka sig út af vanskilaskrá í ákveðnum tilfellum.

„Creditinfo starfar skv. leyfi frá Persónuvernd. Leyfið kveður skýrt á um það að telji einstaklingur kröfu umdeilda eða um hana standi einhver ágreiningur, þá getur hann andmælt skráningu hennar á vanskilaskrá. Þetta á við ef vanskilin hafa ekki verið staðfest með opinberri réttargjörð, t.d. árituð stefna eða dómur verið kveðinn upp í héraðsdómi. En eftir þann tíma er svo litið á að búið sé að leysa úr ágreiningi um lögmæti kröfu. Þetta á við hvort sem búið er að skrá vanskil á skrána eða ef skráningin er fyrirhuguð en einstaklingur fær alltaf tilkynningu 17 dögum áður en færslan fer á vanskilaskrá,“ segir Sigríður Laufey. 

Þurfi að sanna að andmælt hafi verið

Andmælin þurfa að vera sannanleg, til dæmis með tölvupósti.  

„Við erum með þjónustuvef sem heitir Mitt Creditinfo. Það er langeinfaldasta leiðin til þess að eiga í samskiptum við okkur og sú öruggasta. Þetta eru viðkvæmar persónuupplýsingar og við leggjum mikla áherslu á persónuöryggi. Fólk hefur samband þarna í gegn, getur séð þarna allar skráningar og fyrirhugaðar skráningar. Við leiðbeinum svo fólki um það hvernig það getur borið upp andmæli. En það þarf skv. starfsleyfi að bera andmæli upp við kröfuhafa eða umboðsmanns hans. Við getum alltaf aðstoðað við það að finna út hver er umboðsmaður ef fólk hefur ekki upplýsingar um það,“ segir Sigríður Laufey.

Skuldari þurfi ekki að sanna að krafan sé ólögmæt heldur aðeins að sýna að hann hafi sent andmæli. 

„Það er engin sönnunarbyrði sem hvílir á einstaklingi um það að krafan sé umdeild eða óréttmæt. Það er bara afskráð af vanskilaskránni, ef krafa hefur ekki verið staðfest hjá dómstóli,“ segir Sigríður Laufey.

Smálánaskuldarar sumir teknir af vanskilaskrá

Hún segir dæmi um að skuldir vegna smálána hafi verið teknar af vanskilaskrá vegna andmæla.

Hvaða skilyrði þarf fyrirtæki að uppfylla svo það geti óskað eftir því að einstaklingur sé skráður á vanskilaskrá?

„Samkvæmt starfsleyfi félagsins er heimilt að skrá á vanskilaskrá annars vegar upplýsingar sem koma úr opinberum gögnum. Og hins vegar upplýsingar um vanskil sem koma beint frá okkar áskrifendur sem gera samninga við Creditinfo um innsendingar vanskilamála. Í starfsleyfinu er talið upp í átta liðum á hvaða grundvelli áskrifandi getur óskað skráningar á vanskilaskrá. Svo sem ef skuldari hefur fallist með sátt á að greiða skuldina, hann hefur áritað eignaleysisyfirlýsingu hjá kröfuhafa eða skv. yfirlýsingu í skulda- og lánaskjölum, sem er ekki óalgeng heimild,“ segir Sigríður Laufey.