Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Svona ætla ég að minnast sonar míns“

Mynd: - / Einkasafn

„Svona ætla ég að minnast sonar míns“

01.03.2020 - 09:49

Höfundar

Á síðasta ári gerði Eva Skaarpas það sem ekkert foreldri ætti nokkurn tímann að þurfa að gera. Hún ritaði minningargrein um son sinn Gabríel sem svipti sig lífi í nóvember aðeins tuttugu og eins árs. Rætt var við hana í þættinum Minningargreinar um sorgarferlið og soninn sem hún þurfti að kveðja allt of snemma.

„Það er ekki hægt að skrifa minningargrein um hann. Það er ekki hægt að plana jarðarförina hans og það er ekki hægt að velja mynd. Þú gerir þetta samt. Tíu dögum eftir að barnið þitt deyr ertu að skera laufabrauð með hinu barninu þínu. En það er ekki hægt,“ segir Eva Skarpaas, móðir Gabríels Jaelon Skarpaas Culver. Hann svipti sig lífi í nóvember 2019 rétt rúmlega tvítugur. Anna Marsibil Clausen ræddi við Evu í útvarpsþættinum Minningargreinar á Rás 1. Þriðji þáttur var allur helgaður minningu Gabríels og minningargreininni sem móðir hans skrifaði nokkrum dögum eftir andlát hans. „Við þurftum að skila henni fyrir hádegi á þriðjudegi. Ég fer út að hlaupa um morguninn og skrifaði hana í hausnum á mér,“ rifjar hún upp. „Svo kem ég heim og sest við tölvuna, skrifa minningargreinina og ég sendi hana.“

Mynd með færslu
 Mynd: Eva Skarpaas

Alltaf tekið opnum örmum

Eva hafði ekki hugsað sér að verða eignast barn strax þegar hún varð ófrísk af Gabríel en þegar hún áttaði sig á því að svo væri ákvað hún að hætta öllum ósiðum, snúa við blaðinu og einbeita sér að barninu og móðurhlutverkinu. Það gerði hún alla tíð síðan. „Það var ein sígaretta sem tók að taka þessa ákvörðun. Ég hætti að reykja og tek ákvörðun um að verða mamma og gera þetta eins vel og hægt er. Svo bara eignaðist ég þennan frábæra strák.“

Gabríel var afar hraust og hamingjusamt barn. Þegar hann var þriggja ára kynntist móðir hans Þórólfi Inga sem gekk honum í föðurstað. Honum var allstaðar tekið opnum örmum. Hann var náttúrulegur íþróttamaður, duglegur í skóla auk þess sem hann var fjallmyndarlegur. Hann sagði jafnvel seinna að öll jákvæð athygli, sökum útlits og atgervis, hafi kannski ekki alltaf verið til góðs. Um sumt voru hlutirnir of auðveldir fyrir hann. Hvað Evu varðar fannst henni fyrst taka að glitta í skuggahliðar sálarlífs sonar síns þegar hann var tólf ára. Þá hitti hann föðurfjölskylduna sína í fyrsta sinn í Bandaríkjunum og það var reynsla sem átti eftir að sitja í honum.

„Hann er kominn í örugga höfn“

Hann hélt þó áfram að vera vinamargur og glaðvær með fullkomna mætingu í skólanum. Hann fór þó að verða fjarlægari og þyngri í skapi og meðal annars að laumast út á fermingaraldri að drekka og reykja gras. Foreldrar hans reyndu ýmislegt, settu honum mörk og hann hlýddi þeim um tíma en leitaði alltaf til baka. Þegar hann varð sautján ára lenti hann í stóru áfalli þegar hann keyrði undir áhrifum, með vini sína í bílnum, og keyrir út af. Hann var sérstaklega miður sín yfir að hafa lagt vini sína, sem allir sluppu ómeiddir, í hættu.

Tíminn leið svo með einhverjum minniháttar uppákomum en svo kom þar að að Evu fannst hún skynja krossgötur í lífi sonar síns. Hann eignaðist kærustu og varð ástfanginn. „Þau voru stundum hérna en mikið heima hjá henni. Ég var satt best að segja svolítið fegin. Hann var búinn að finna sér stað og ég þekkti fjölskylduna hennar sem tók honum opnum örmum. Ég hugsaði: Hann er kominn í örugga höfn.“

Taldi sig hafa erft myrkur frá föður sínum

En sonurinn byrjaði í neyslu sem bitnaði bæði á honum sjálfum og sambandinu hans. Kærastan setti honum loks stólinn fyrir dyrnar ef hann hætti ekki í neyslunni, sem hann ákvað að gera og þau tóku saman aftur. Allt gekk ágætlega um hríð. Í febrúar 2019 fékk hann hinsvegar annað áfall þegar hann komst að því með því að fletta föður sínum upp á Google að hann væri staddur í fangelsi fyrir alvarlega glæpi. Sú uppgötvun lagðist þungt á Gabríel sem trúði móður sinni fyrir því að sér liði eins og hann hefði kannski erft eitthvað myrkur frá pabba sínum. Nokkrum vikum síðar tók hann ákvörðun sem Eva segir hafa verið verstu ákvörðun lífs hans.

Sneri lífinu á hvolf og ákvað að flytja til Japans

Hann hafði setið fyrir nokkrum sinnum og landað fyrirsætusamningum, meðal annars fékk hann stórt verkefni fyrir Smáralind. Myndir birtust af honum víða um bæinn og í bæklingum. Hann varð líka vinsæll á Instagram og verður samkvæmt móður hans uppnuminn yfir þeirri athygli sem hann fær þar. Í gegnum forritið eignast hann haug af fylgjendum og aðdáendum, kynnist Instagram stjörnu frá Japan sem sýndi honum óvæntan og mjög mikinn áhuga. Eftir aðeins nokkurra daga spjall við hana tekur hann ákvörðun um að hætta með kærustunni sinni og vera með japönsku stúlkunni. Hann ræddi ákvörðun sína við útvarpsstöðina 101 í viðtali, sem þau hafa tekið niður af vefnum, þar sem hann sagðist hafa pantað sér flug til Japan til að vera með henni.  Á örfáum vikum sneri Gabríel lífi sínu á hvolf. Hann hætti með kærustunni sinni, byrjaði með stelpu sem hann þekkti ekki neitt og bjó í öðru landi.

Þegar hann kom til baka úr þeirri ferð segist móðir hans hafa greint það í syni sínum að eitthvað væri brotið. Hann áttaði sig á því þegar komið var til Japan að hann væri fullur eftirsjár yfir skyndiákvörðunum sínum og hegðun. Saknaði fyrrverandi kærustunnar sinnar en gat ekki snúið til baka. Hann neytti fíkniefna úti og hélt því áfram er heim var komið.

Hann fylltist mikilli ábyrgðartilfinningu gagnvart japönsku stúlkunni en þegar hún kom til Íslands í viku heimsókn til Gabríels gekk heimsóknin afar brösulega. „Hún vill að hann reimi á hana skónna því hún er með svo langar neglur. Hún er óánægð því hann er ekki alltaf að taka myndir af þeim til að setja á Instagram. Á meðan er hann í þeirri stöðu að hann vill ekki einu sinni fara út því hann skammast sín svo fyrir hvert hann er kominn og allt þetta klúður.“

Hættir við flutningana og neysluna

Til stóð að Gabríel flyttist til Japans en eftir því sem nær dró varð hann sífellt meira tvístígandi. Að lokum ákvað hann að hætta við. Stúlkan brást illa við fregnunum áformin hefðu breyst og Gabríel átti við hana símtal úti í garði þar sem Eva finnur son sinn í miklu uppnámi. Þá hafði stúlkan hótað að fremja sjálfsvíg á Instagram. Eva tekur af honum símann og hringir í stúlkuna og tekst að róa hana en hann ákveður í framhaldinu að hætta allri neyslu.

Gabríel er lengi í fráhvörfum og verður mjög niðurdreginn. Hann fær í niðurtúrnum skilaboð frá lögreglunni um að hann sé búinn að missa bílprófið í tvö ár og þá er veruleiki hans orðinn sá að hann hefur misst kærustuna, bílprófið og vinnuna sem hann gat ekki unnið bílprófslaust.

Kveðjubréfið

Hann fékkst til að fara í sálfræðitíma en fann sig ekki. Hann fékkst til að fara einu sinni upp á geðdeild en ekki aftur. En Evu tókst að fá soninn með sér út að hlaupa. Á einu skokkinu hlupu þau framhjá íþróttavöruverslun sem Eva hafði séð auglýsa eftir starfskrafti. Gabríel fór inn, fékk viðtal og í kjölfarið vinnuna. En honum leið enn mjög illa. Einn daginn fær Eva fékk slæma tilfinningu eftir símtal frá syninum, brunar heim og finnur frá honum kveðjubréf.

Hann var staddur í vinnunni en hún les bréfið og fær áfall og fer í vinnuna til hans þar sem hún finnur hann. Hann sagði móður sinni að hún hefði ekki átt að finna bréfið, honum hafi einfaldlega liðið illa en ekki meint mikið með því að skrifa það. Eftir þetta atvik samþykkir Gabríel þó að leita til Píeta samtakanna sem sinna forvarnarstarfi gegn sjálfsvígum. Hann fer einnig til heimilislæknis og fær lyf við þunglyndi. Fjölskyldan vonaði að nú myndi honum loks fara að líða betur. En það gerðist ekki. Gabríel lést 9. nóvember 2019 tuttugu og eins árs að aldri. 

„Svona ætla ég að minnast sonar míns“

Minningargreinina sem Eva skrifaði um son sinn nokkrum dögum síðar ritaði hún mest fyrir sjálfa sig en þetta var hennar leið til að koma tilfinningum sínum á blað. „Ég hef lesið alveg fullt af minningargreinum en ég hugsaði ekki: Ég ætla að skrifa minningargrein eins og minningargreinar eiga að vera. Þetta var bara ofboðslega hrátt. Þetta var bara: Svona ætla ég að minnast sonar míns og svona líður mér.“

Einu sinni voru ekki skrifaðar minningargreinar um fólk sem framdi sjálfsvíg. Einu sinni skrifuðu mæður ekki minningargreinar um börnin sín. En einu sinni er ekki til lengur. Í dag má gráta og syrgja opinberlega og í dag má biðja um hjálp.

Ef þú lesandi tengir við einhverja af þeim erfiðleikum sem Gabríel gekk í gegnum, jafnvel þó það sé á þinn eigin alpersónulega hátt og þér líður illa, fáðu hjálp. Talaðu við einhvern sem þú treystir. Hringdu til dæmis í Hjálparsíma Rauða krossins 1717, leitaðu til geðdeildar eða Píeta samtakanna.