Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Svo mikil þvæla að hálfa væri nóg“

Mynd: RÚV / RÚV

„Svo mikil þvæla að hálfa væri nóg“

31.07.2019 - 14:30
Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Stjörnunnar, býr lið sitt undir leik gegn spænska liðinu Espanyol í Evrópudeild karla í fótbolta annað kvöld. Leikurinn leggst vel í hann þótt erfiður verði. Espanyol vann fyrri leik liðanna á Spáni 4-0.

„Það er mikil tilhlökkun. Það er ekki á hverjum degi sem við fáum svona stórlið hérna á Samsung [-völlinn, heimavöll Stjörnunnar]. Það er mikil tilhlökkun og við erum gíraðir í þetta að bara njóta þess og hafa gaman.“ segir Rúnar Páll.

Stjarnan tapaði fyrri leik liðanna 4-0 ytra en staðan var markalaus í hálfleik. Rúnar Páll segir að gæðamunur hafi sýnt sig þegar leið á leikinn.

„Það er ákveðinn gæðamunur. Það var gæðasending þarna í fyrsta markinu og frábær framherji [Borja Iglesias] hjá þeim náttúrulega sem skorar þetta mark. Síðan eru líka gæði í öðru markinu þegar hann flikkar inn fyrir og bara gæðamörk. Við gerðum í sjálfu sér ekkert vitlaust í þessu. Þeir voru bara framar en við og eru að spila í betri deild en við.“

„Þetta er frábært lið. Rosalega vel spilandi með frábæra framherja og bara frábæra menn í öllum leikstöðum, það er nú bara þannig. Við þurfum að vera klókir, þolinmóðir og spila varnarleikinn feykivel,“ segir Rúnar Páll.

Leikur Stjörnunnar og Espanyol fer fram á Samsung-vellinum í Garðabæ klukkan 19:00 annað kvöld.

„Enginn með svoleiðis laun hjá mér“

Rúnar Páll var spurður út í tölur sem Leikmannasamtök Íslands birtu í fyrradag. Í könnun samtakanna hjá leikmönnum efstu deildar kom fram að þrír leikmenn væru með yfir 3,6 milljónir króna í mánaðarlaun. Hagmunasamtökin Íslenskur toppfótbolti gagnrýndu tölurnar sem birtar voru og sögðu þær ekki réttar. Rúnar Páll tók í svipaðan streng er hann var spurður hvort einhver leikmanna hans væri með svo há laun.

„Þetta er svo mikil þvæla maður. Þetta er svo mikil þvæla að hálfa væri nóg. Það er enginn með svoleiðis laun hjá mér, nei, og mun aldrei verða held ég í íslenskum fótbolta. Það er nú bara eins og það er.“

Aðspurður hvort hann fyndi fyrir því að laun færu hækkandi í boltanum segir Rúnar: „Nei, við höfum haldið vel á spilunum hér í Garðabænum og við erum ekki að borga hæstu launin í þessu. En við borgum launin, það er kannski það sem við höfum yfir aðra klúbba,“

Fleira kemur fram í viðtalinu við Rúnar Pál sem má sjá í heild sinni í spilaranum að ofan.

Tengdar fréttir

Fótbolti

„Enginn hefur burði til að greiða slík laun“

Fótbolti

Þrír segjast vera með yfir 3,6 milljónir

Fótbolti

Valur nálægt sigri - Erfitt hjá Stjörnunni