Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Svo fær þessi þáttur arfaslæma dóma

Mynd: RÚV / RÚV

Svo fær þessi þáttur arfaslæma dóma

30.07.2019 - 11:23

Höfundar

Hópi grínara var att saman árið 1993 til þess að búa til nýja og ferska gamanseríu fyrir sjónvarpið. Þarna voru Radíusbræður, Hjálmar Hjálmarsson, Helga Braga, Sigurjón Kjartansson og nýliðinn í hópnum, Jón Gnarr, sem átti þarna frumraun sína í íslensku sjónvarpi í þættinum Limbó.

Skemmtiþátturinn Limbó birtist á sjónvarpsskjám landsmanna 1993 og þótti innihalda nýja tegund af róttæku gríni. Leikstjórinn, Óskar Jónasson, átti að halda utan um hóp grínara sem samanstóð af þeim Steini Ármanni Magnússyni, Davíð Þór Jónssyni, Hjálmari Hjálmarssyni, Helgu Brögu og Sigurjóni Kjartanssyni. Sigurjón Kjartansson sagði Þórði Helga Þórðarsyni í þættinum Grínlandi frá tilurð þáttanna og meðal annars frá því hvernig hann plataði vin sinn Jón Gnarr í fyrsta skipti í sjónvarpið. Hér má hlusta á seinni Grínlandsþáttinn með Sigurjóni í heild sinni þar sem hann meðal annars ræðir Limbóþættina.
 
„Það er ekki fyrr en árið 1993, þegar Jón kemur heim frá Svíþjóð, sem við áttum okkur á því að það væri dæmt til að gerast að við tveir færum að vinna eitthvað saman í grínheimum á einn eða annan hátt. Við höfðum sýnt það og sannað að við áttum gott með að vinna saman,“ segir Sigurjón um tildrög þess að þeir gerðu sitt fyrsta grínatriði saman í sjónvarpi. „Ég hafði verið að vinna aðeins með Óskari Jónassyni, gerðum þarna Sódómu Reykjavík 1991 sem var svo frumsýnd 1992. Við náum vel saman og erum svona að gera ýmislegt, skrifa saman handrit og þess háttar. Ég leik svo eitthvað í því sem Óskar er að gera eftir það en svo fær Óskar nýtt verkefni í hendurnar sem er að gera gamanseríu með Radíusbræðrum er kallaðist Limbó.“

Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RÚV
Sigurjón Kjartansson og Jón Gnarr hafa starfað lengi saman að alls konar gríni.

Sigurjón segist ekki hafa stokkið á þessa hugmynd í fyrstu. „Óskar spurði hvort ég hefði ekki áhuga á að vera með, mér leist ekkert á það. Ég sagðist hafa mikinn áhuga á alls konar gríni en þessir Hafnfirðingar væru sko alls ekki minn tebolli. Ég lét samt til leiðast og mætti í fyrsta þáttinn,“ segir Sigurjón og rifjar upp að hann hafi auðvitað verið í rokksveitinni HAM á þessum tíma og umhugað um að vera kúl. „Ég er kominn þarna í hlutverk einhvers sviðsmanns, mér fannst eins og ég væri dreginn í eitthvað sem ég hafði engan áhuga á. Svo fær þessi þáttur arfaslæma dóma. Það átti nú að gera alveg sex þætti. Á þessum árum voru þættir sýndir hálfsmánaðarlega, þeir voru annað hvert laugardagskvöld, seint á dagskránni. Mér þótti fyrsti þátturinn ekkert sérstakur,“ segir Sigurjón. 

Sigurjón hafði fengið leyfi Óskars til að gera grínskets með vini sínum Jóni Gnarr fyrir þáttinn og tóku þeir upp Dularfulla pennahvarfið sem sýna átti í öðrum þætti Limbós. „Það var það eina sem mér fannst sniðugt við þetta, það var atriði okkar Jóns. Ég ákvað svo bara að hætta og sagði að ég vildi ekki vera þessi sviðsmaður í þættinum og sagði að Jón væri örugglega til í það. Á þessum tíma var Jón bara að vinna sem leigubílstjóri en langaði alveg að komast í grínið. Óskar var nú ekkert sérlega hrifinn af þessari hugmynd en féllst á að Jón kæmi þarna inn, það voru nefnilega tökur daginn eftir,“ segir Sigurjón. Þetta var frumraun Jóns Gnarr í sjónvarpi. „Sketsinn okkar var sýndur í þessum þætti og þegar ég horfði á hann, verandi hættur, þá fannst mér þetta bara ferlega góður þáttur. Þáttur tvö var miklu betri en þáttur eitt ... en þá var þetta tekið af dagskrá.“

Atriði Sigurjóns og Jóns um dularfulla pennahvarfið má sjá hér að ofan en Limbóþættina í heild má sjá í spilaranum.

Tengdar fréttir

Menningarefni

„Ég drep þig ef það eru hrútspungar í þessu!“