Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Svíþjóð: Stjórnvöld sein að bregðast við árásum

16.11.2019 - 08:03
Mynd með færslu
 Mynd: SVT - Skjáskot SVT
Sprengju- og skotárásir í Suður-Svíþjóð hafa verið tíðari á þessu ári en undanfarin ár - og síðustu vikur hafa þær orðið harðari og valdið meira manntjóni en áður hefur þekkst. Ástandið er séstaklega slæmt í Malmö. Sænsk stjórnvöld eru gagnrýnd fyrir aðgerðarleysi en ástæðan fyrir þessum tíðu árásum á rætur sem má rekja djúpt inni í samfélaginu.

Um níu-leytið á laugardagskvöldið var 15 ára piltur fluttur á sjúkrahús eftir skotáras á pizzastað við Möllevångstorgið í Malmö. Hópur ungra manna á reiðhjólum hóf skothríð að honum og öðrum pilti. Þeir eru báðir fæddir árið 2004. Sá sem fluttur var á sjúkrahús er enn á gjörgæslu. Hinn, Jaafar Mohammad Ibrahim, lést af sárum sínum. Sex göt eftir byssukúlur sáust á framhlið pizzastaðarins eftir árásina.

Þessi skotárás hafði greinilega verið býsna vel undirbúin. Nokkrum mínútum fyrir þessa árás var tilkynnt um sprengingu í Fågelbacken í sömu borg. Lögreglan var kölluð þangað en nú er talið að þessi sprenging hafi verið yfirvarp til að auðvelda þeim sem skutu á piltana tvo að athafna sig.

Jaafar var Sýrlendingur en kom til Svíþjóðar árið 2016 ásamt fjölskyldu sinni - til föður síns, Mohammads Ibrahim, sem hafði komið til Svíþjóðar ári áður. Mohammad lýsti reynslu sinni á þriðjudag í sænska ríkissjónvarpinu. „Þetta var hræðilegt, virkilega, virkilega hræðilegt. Þú ert mannlegur og skilur hvaða þýðingu eigið barn hefur fyrir mann. Sama hvernig þetta gerðist, þá er þetta ekki sanngjörn leið til að deyja,“ segir Mohammad.

Hann lýsir Jaafar sem ljúfum dreng, vinsælum og oft með félaga heima hjá sér. Honum hafi þótt mjög vænt um foreldra sína og systkini.

Frumskógur í Malmö

Lögreglan sagði á blaðamannafundi að lögreglan hefði þekkt til Jaafars. Mohammad staðfesti það - hann hefði einu sinni verið kallaður inn sem vitni með félaga sínum. Það var allt og sumt. Hann hafi notið ástar og umhyggju fjölskyldunnar.

Það segir kannski sitt að maður sem kemur frá jafn stríðshrjáðu landi og Sýrlandi hafi áhyggjur af ástandinu í Malmö. „Ég hef núna búið í Malmö í fimm ár. Mér finnst ég vera í frumskógi, bæði núna og áður. Eftir þennan hryllilega atburð finnst mér ég vera í frumskógi. Ég bið alla foreldra og fjölskyldur að halda verndarhendi yfir börnunum sínum. Að vera hrædd um þau. Ég óska ekki nokkrum lifandi manni þess að missa barnið sitt á þann hátt sem ég missti mitt barn.“

Mohammad var alls ekki einn í sorginni og andlát hans virðist hafa vakið fólk til umhugsunar um stöðuna. Í það minnsta lagði fjöldi fólks blóm og kerti á Möllevångstorgið til að votta honum virðingu sína.

 

 

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot

Fleiri og harðari árásir

Skot- og sprengjuárásir hafa verið tíðar í suðurhluta Svíþjóðar - einkum í Malmö - undanfarin ár. En nú fer þeim fjölgandi og þær eru harðari. Helgina áður en Jaafar lést var 28 gamall maður skotinn til bana í Malmö. Hann var í glæpagengi í undirheimum borgarinnar.

Ef aðeins sprengingarnar í Malmö eru skoðaðar þá eru þær tvöfalt fleiri en á sama tíma í fyrra. Yfir 70 sprengjuárásir hafa verið gerðar það sem af er ári. Í Svíþjóð í heild sinni eru sprengjurnar vel yfir hundrað það sem af er ári - ríflega tvöfalt fleiri en í fyrra. Árásin um síðustu helgi hefur þó nokkra sérstöðu af tveimur ástæðum. Annars vegar var hún snemma kvölds en ekki að nóttu til eins og þær hafa flestar verið. Hins vegar er það ungur aldur þeirra sem urðu fyrir árásinni, og það hefur vakið óhug.

Þessi mikli fjöldi sprengjuárása á sér ekki fordæmi í heiminum, að sögn Ylvu Ehrlin sprengjusérfræðings. „Það búa tíu milljónir manna í Svíþjóð en ég hef ekki séð jafnmikinn fjölda sprenginga í iðnvæddu landi. Það eru engin dæmi um það,“ segir Ehrlin við SVT. Hún bendir einnig á að það sem getur skapað hættu er að fólk þekki ekki hversu hættulegt sprengiefnið er sem það hefur í höndunum. Þetta hefði jafnvel getað verið enn verra því sprengjusveitum hefur tekist að aftengja hátt í 80 sprengjur áður en þær hafa sprungið.

Annar afbrotafræðingur segir að aðeins í Mexíkó séu sprengjur notaðar í meiri mæli í árásum en í Svíþjóð, þegar horft er til landa þar sem stríð geisa ekki. Og svo eru það skotárásirnar. Ardavan Khoshnood afbrotafræðingur sagði í viðtali við SVT að hvergi annars staðar í Vestur-Evrópu verði fleiri á aldrinum 15-29 ára fyrir skoti.

Annars konar sprengjur

Breytingin í ár er ekki aðeins í fjölda sprenginga. Áður voru aðallega notaðar handsprengjur og aðrar sprengjur sem menn nota í hernaði. En í ár fór að bera á því að meira var notað af öflugra sprengiefni, sem er til dæmis notað í framkvæmdum og vegagerð. Og dæmi eru um að samsetning þeirra beri þess merki að þar kunni fólk ekki til verka - og geri sér þá kannski ekki grein fyrir hversu miklum skaða það getur valdið.

Þessar árásir eiga sér fyrst og fremst stað í fátækari hverfum. Og ekki eingöngu í Malmö - líka í Gautaborg, Stokkhólmi og Linköping. Og nú í vikunni var haldinn blaðamannafundur í Uppsölum, þar sem kom fram að tuttugu og átta skotárásir hafi átt sér stað í þessum háskólabæ það sem af er ári, og fjörutíu og fjórar alls í miðhluta Svíþjóðar. Munurinn er þó sá að í þeim hefur enginn slasast alvarlega.

Gunnhildur Lily Magnúsdóttir, dósent í stjórnmálafræði við Háskólann í Malmö.
 Mynd: Aðsend
Gunnhildur Lily Magnúsdóttir.

Undirheimar og meirihlutasamfélag skarast

En hvers vegna eru þessar árásir svona algengar? „Það er kannski hluti af vandamálinu að við höfum þetta svokallaða meirihlutasamfélag þar sem meirihluti borgarinnar býr og svo höfum við undirheimana,“ segir Gunnhildur Lily Magnúsdóttir, prófessor í stjórnmálafræði við háskólann í Malmö. Hún hefur búið í Svíþjóð í 17 ár. „Það sem kemst í fréttirnar er þegar þessir tveir heimar skarast. En hluti af ástæðunni fyrir því að undirheimarnir hafa vaxið og skotárásum hefur fjölgað er að þetta er vandamál sem er bundið við ákveðin gengi. En það sem gerðist núna um helgina var mjög sjokkerandi og ég held að fólk sé slegið en kannski ekki hissa.“

Og það getur fleira komið til. Ef umhverfið er borið saman við Danmörku - og þar hafa vissulega verið sprengjuárásir líka þó að þær séu ekki jafn tíðar og í Svíþjóð - segir Gunnhildur Lily að sérfræðingar hafi meðal annars bent á að fjarskiptalög séu önnur þar - til dæmis eru rýmri heimildir til hlerana. „Það hefur verið bent á að það sé minni samvinna milli lögreglu, félagsmálayfirvalda og skóla hérna í Svíþjóð og þar sé hver dálítið í sínu horni. Þetta skiptir auðvitað gífurlegu máli þegar verið er til dæmis að stemma stigu við að unglingar verði hluti af þessum gengjum. Svo held ég að hluti af skýringunni sé sú að stjórnmálamenn hafi kannski verið sofandi. Það hefur verið ímynd Svíþjóðar, sem á kannski við um öll Norðurlöndin, að þau séu örugg og þetta kemur kannski svolítið aftan að sænsku samfélagi núna. Ég myndi segja að margir hafi á síðustu 10 árum vaknað upp við vondan draum en viðbrögðin hafa kannski ekki alveg verið í samræmi við það sem hefur verið í gangi.“

Undir þetta tekur afbrotafræðingurinn Ardavan Khoshnood. Bæði sé aðgengi að vopnum betra og Svíar hafi verið ótrúlega einfaldir og seinir að taka á ástandinu. „Það hefur fólk öskrað sig hást í tíu til tuttugu ár um ástandið, án þess að það hafi verið tekið alvarlega,“ segir Khoshnood.

Mynd með færslu
Mikil gleði er á kosningavöku SD í Stokkhólmi enda bætir flokkurinn við sig miklu fylgi. Mynd: AP
Svíþjóðardemókratar fagna góðu gengi í þingkosningunum í fyrra.

Aukið fylgi Svíþjóðardemókrata

Gunnhildur Lily segir stjórnmálin ekki samstíga í því hvernig eigi að taka á þessum vanda. Til að mynda hafa Svíþjóðardemókratarnir boðað vantrauststillögu á dómsmálaráðherra. „Þeir njóta stuðnings hægri manna, Moderatarna, og Kristilegra demókrata. Það nægir svo sem ekki til þar sem þessir flokkar eru í minnihluta, en þetta sýnir samt kannski að það er ekki sátt og ekki samstaða þvert á flokka um hvernig á að taka á þessum málum.“

Og árásirnar hafa aukið stuðninginn við Svíþjóðardemókratana sem vilja draga úr straumi innflytjenda til Svíþjóðar. Síðast í gær birtist skoðanakönnun sem sýndi flokkinn sem þann stærsta í Svíþjóð. „Bæði getum við túlkað það sem andúð við vissa hópa af innflytjendum, svo getum við líka túlkað það sem svo að Svíþjóðardemókratarnir hafa verið fremstir í flokki þegar kemur að því að berjast fyrir hertri löggjöf, nýta refsirammann og annað slíkt.“

Íbúar telja sig örugga

Gunnhildur Lily segir að áhrifin á hinn almenna íbúa í Malmö séu þó ekki eins mikil og ætla mætti. Könnun frá í september sýnir til dæmis að íbúum Malmö fannst þeir öruggari þá en til að mynda árið áður. En sú könnun var auðvitað gerð fyrir nýjustu árásirnar.

„Skotárásir og annað slíkt, þetta er náttúrulega algjörlega ólíðandi, skotárásir og sprengjuárásir, og þetta á auðvitað ekki að líðast í friðsömu landi. En á móti kemur að til dæmis skotárásum á almenna borgara eða morðum og öðru alvarlegu ofbeldi hefur fækkað, og það er eitthvað sem frekar snertir almenna borgara heldur en þessar skotárásir sem eru núna í gangi. En samt sem áður er þetta alvarlegt mál og þetta er ekki eitthvað einangrað fyrirbæri sem bara snertir gengjameðlimi, getum við sagt,“ segir Gunnhildur Lily.

Stefan Sintéus, lögreglustjórinn í Malmö.
 Mynd: SVT - Skjáskot
Stefan Sintéus, lögreglustjóri í Malmö.

 

Lögregla og borgaryfirvöld bregðast við

Borgaryfirvöld í Malmö taka þetta í það minnsta alvarlega og hafa ákveðið að grípa til aðgerða. Þau vilja ná betur til unga fólksins til að koma í veg fyrir að það ánetjist eiturlyfjum.

Sænsk lögregluyfirvöld brugðust einnig við í vikunni. Lögreglan á að vera sýnilegri á götunum - sem er kannski mest til að auka öryggistilfinningu íbúa. Svo var stofnaður sérstakur rannsóknarhópur undir forystu lögreglustjórans Stefans Sintéus. Í þann hóp fær hann liðsinni frá héraðslögregluembætti Suður-Svíþjóðar. Ríkislögreglustjóri Svíþjóðar hefur líka boðið aðstoð.

Það verður einnig farið í samhæfðar aðgerðir um alla Svíþjóð sem sérstök aðgerðastjórn lögreglunnar sér um, sem kallast Nationella operativa avdelingen, skammstafað NOA. Aðgerð sem kallast Rimfrost, og gæti útlagst sem frostrósir á íslensku, var einnig kynnt í vikunni en hún felur í sér að lögreglan fær meiri valdheimildir til að taka á málinu. Þvingunarúrræðum verður beitt til að fækka fólki í glæpagengjum og gera í auknum mæli upptæk vopn.

Stefan Hector aðgerðastjóri hjá NOA segir að engar einfaldar lausnir séu á svo flóknu vandamáli. Það eigi að fækka árásum, fækka í glæpagengjum og auka öryggi fólks.

Ardavan Khoshnood afbrotafræðingur segir þessar aðgerðir jákvætt skref sem dragi úr ofbeldi. Það sem gerist í framhaldinu ráði hins vegar úrslitum. „Við sjáum örugglega árangur af þessu starfi, en spurningin er hvað gerist eftir hálft til eitt ár. Verður þetta dregið til baka eða höldum við þessu framlagi. Það er mikilvægasta spurningin.“

Gunnhildur Lily er einnig bjartsýn á að þessar aðgerðir lögreglunnar beri árangur. Ýmislegt sem lögreglan hafi þegar gert sé farið að skila árangri, bæði að bjóða fólki að skila inn vopnum nafnlaust og að reyna að ná til unglinga sem eru á leið í glæpagengi. „Lögreglan hefur verið með í talsverðan tíma átak til að fá bæði gengjameðlimi til að skila inn vopnum og það hefur skilað talsverðum árangri og eins hefur lögreglan verið með átak bæði hér, í Stokkhólmi og Gautaborg í að ná til ungra gengjameðlima eða þeirra sem eru á leiðinni inn í gengi. Ég held að það geti skilað árangri en það tekur tíma og krefst meira en tímabundinna verkefna og tímabundins aukins fjármagns hjá ríkinu. En stóra vandamálið er auðvitað að einhverju leyti félagsleg vandamál og fátækt í mörgum tilfellum sem er grunnurinn að þessu öllu. Og það þarf að taka á því líka og það er auðvitað langtímaverkefni og ekkert sem leysist á hálfu ári eða einu ári.“

 

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV