Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Svínaræktendur skelkaðir eftir gagnrýni

05.10.2015 - 19:49
Mynd: RÚV / RÚV
Ingvi Stefánsson svínaræktandi í Eyjafirði tjáði sig um slæman aðbúnað dýranna á Facebook-síðu sinni en hann segir svínabændur skelkaða eftir umræðuna að undanförnu.

 

Matvælastofnun hefur gagnrýnt aðstæður á svínabúum landsins þar sem legusár fundust á gyltum á öllum búum sem heimsótt voru í fyrra. Myndir úr íslenskum svínabúum sýna gyltur á svo þröngum básum að þær gátu ekki rétt úr fótum. Matvælastofnun telur það alvarlegt lögbrot.

„Mér finnst engin þörf á að tala um þessar myndir, þær dæma sig auðvitað sjálfar og er óásættanlegt þar sem myndirnar eru hvað ljótastar. En sem betur fer er þetta ekki normið hvað varðar aðbúnað á svínabúum landins,“ segir Ingvi.

Halaklippingar á grísum eru ólöglegar en tíðkast þó um allt land. Aðeins eitt af þeim búum sem Matvælaeftirlitið skoðaði stundaði ekki slíkar klippingar.

„Þetta með halaklippingarnar er auðvitað ekki nógu gott, ég hef sjálfur ítrekað prófað að hætta því en það hefur því miður ekki komið nógu vel út fyrir mig og því hef ég gert þetta og ég bara viðurkenni það.“

Allir svínaræktendur sem fréttastofa hefur talað við hingað til hafa hafnað því að myndirnar umræddu séu frá þeirra búi. Spurður hvort að hann væri tilbúinn til að hleypa fréttastofu inn á svínabúið sagði Ingvi:

„Já hvað þetta verðar þá er það eins og ég hef komið inn á að ég er tilbúinn til þess að opna á allar eftirlitsskýrslur Matvælastofnunar hvað mitt bú varðar og leggja þau göng á borðið og ég vil meina að það veiti mínu búi góðan vitnisburð. Ég er semsagt núna í tímabundnum framkvæmdum á mínu gyltubúi meðal annars til þess að koma til móts við þær auknu kröfur sem verið er að gera á okkur. Ef þú gefur mér nokkrar vikur þá skal ég gera það.“ 

Fréttamaður: Ef ég fengi að líta inn núna, eru aðstæður vinunandi?

"Sko ef við erum að tala um nýju lögin og reglugerðina þá nei. Ég er með básahald. Þannig að eins og ég segi þá er þetta það sem var talið gott og gilt fyrir 6-7  árum síðan en er ekki í dag." 

Þó var veitt góðfúslegt leyfi til þess að mynda inn í grísabúið eins meðfylgjandi myndir sýna.

Eyþór Sæmundsson
ragnhildurth's picture
Ragnhildur Thorlacius
Fréttastofa RÚV