Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Svifryk vegna flugelda varasamt og heilsuspillandi

23.12.2019 - 12:10
Mynd með færslu
 Mynd: Hjalti Haraldsson - RÚV
Afar mikið svifryk mældist í loftinu um síðustu áramót og svifryksmengun jókst verulega þá. Ljóst er að aukningin er af völdum flugelda. „Mengun frá flugeldum er raunverulegt vandamál hér á landi. Flugeldar eru aldrei umhverfisvænir eða skaðlausir,“ segir í skýrslu Umhverfisstofnunar. Björgunarsveitirnar selja nú svokölluð rótarskot auk flugelda.

Þetta kemur fram í skýrslu Umhverfisstofnunar um mælingar á svifryki um áramótin í fyrra. Þar segir að svifryk, með þessa efnasamsetningu, verði að teljast varasamt og heilsuspillandi. 

„Stofnunin bendir á að loftmengun hefur neikvæð áhrif á þá sem fyrir henni verða, sérstaklega viðkvæma hópa eins og börn, aldraða og fólk sem er veikt fyrir. Svifryk veldur ekki einungis óþægindum heldur skerðir lífsgæði margra.“ 

Fólk er því hvatt til hófsemi í notkun flugelda um áramótin. Mikilvægt sé að draga verulega úr notkun flugelda um áramót þar sem þeim fylgi ávallt mikið svifryk.

 

Mynd með færslu
 Mynd: Vignir Már Eiðsson - RÚV

Mengunin ræðst af magni flugelda og veðurfari

Þorsteinn Jóhannsson, sérfræðingur í loftmengun hjá Umhverfisstofnun, segir að mengun sé afgerandi mikil í sólarhring í kringum áramótin, það er frá hádegi á gamlársdag fram til hádegis á nýársdag.

Þegar sólarhringurinn er skoðaður komi í ljós afgerandi mengunartoppur á miðnætti og á fyrsta klukkutíma nýs árs. Þá sé mesta svifryksmengunin. Aðeins dragi úr meðan áramótaskaupið sé sent út. Þótt mesta mengunin sé af völdum flugelda sé eflaust einhver mengun af völdum áramótabrenna. 

Þorsteinn segir að mengunin ráðist af magni flugelda og veðurfari. Veðrið sé ráðandi þáttur í því hvort mengunin safnist upp eða ekki. Því meiri sem vindurinn sé, því minni sé mengunin. Þær upplýsingar fengust frá Veðurstofunni að enn sé of snemmt að spá fyrir um veður og vinda á gamlárskvöld.

Mynd með færslu
 Mynd: Peter Spencer - Pexels

Bjóða rótarskot í stað flugelda

Björgunarsveitirnar selja flugelda milli jóla og nýárs. Jón Ingi Sigvaldason, hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörg, segir söluna hafa verið svipaða á milli ára og heldur stöðuga. Stundum sé salan meiri en ella en engin risastökk séu á milli ára. 

Fyrir þá sem vilja styrkja björgunarsveitirnar, en ekki kaupa eða skjóta upp flugeldum, eru aðrir möguleikar, segir Jón Ingi. Til dæmis er hægt að vera bakvörður hjá björgunarsveitunum og greiða fasta upphæð mánaðarlega.

Einnig er hægt að kaupa svokallað rótarskot á sölustöðum björgunarsveitanna. Þær gróðursetja eina plöntu fyrir hvert keypt rótarskot. Jón Ingi segir marga koma við á flugeldasölustöðum í þeim eina tilgangi að kaupa rótarskotin. Aðrir kjósi að kaupa skotin með flugeldum.

Byrjað var að selja rótarskot um síðustu áramót. Þá voru um þrettán þúsund skot gróðursett í lundi fyrir utan Þorlákshöfn. Nú hafa átján skógræktarfélög bæst við verkefnið og verða rótarskotin, sem keypt verða um þessi áramót, því gróðursett víða um land á nýju ári.

Skotsvæði fyrir flugelda verða afmörkuð í Reykjavík

Skotsvæði fyrir flugelda verða afmörkuð með keilum og borðum á Skólavörðuholti, Klambratúni og Landakotstúni í Reykjavík á gamlárskvöld. Með þessu er verið að reyna að draga úr hættu á slysum af völdum skotelda, en mikill mannfjöldi hefur safnast saman á þessum stöðum ár hvert, segir á vef Reykjavíkurborgar. Þá verður Skólavörðuholti lokað fyrir akandi umferð að hluta. Gæsluliðar verða á svæðunum frá klukkan 22 til 01 á nýársnótt.

„Við hvetjum íbúa og gesti til að sýna aðgát og virða leiðbeiningar,“ segir Björg Jónsdóttir verkefnisstjóri viðburða hjá Reykjavíkurborg, sem heldur utan um skipulagningu í ár.

Mynd með færslu
 Mynd:

Skila á leifum af flugeldum á næstu endurvinnslustöð

Á vef Sorpu segir að þrátt fyrir að flugeldar séu úr pappa að mestu sé leir í botninum sem geri það að verkum að ekki sé hægt að endurvinna pappann. Þar af leiðandi fari flugeldarusl í gám fyrir blandaðan úrgang á næstu endurvinnslustöð. Ósprungnir flugeldar fari hins vegar í spilliefnagáma.  

„Þetta á að fara í blandaðan gám á endurvinnslustöð. Það er eina rétta leiðin fyrir flugeldarusl,“ segir Björn H. Halldórsson, framkvæmdastjóri Sorpu. Ekki er hægt að endurvinna efnið og það verður því að eyða því. Fólki er bent á að gæta hófs í notkun flugelda. 

Umhverfisstofnun safnaði sýnum á loftgæðamælistöðvunum við Grensásveg í Reykjavík og Dalsmára í Kópavogi á tímabilinu 27. desember 2018 til 10. janúar 2019.