Sveitin milli sanda

Mynd: RÚV / RÚV

Sveitin milli sanda

31.08.2018 - 18:44

Höfundar

Sveitin milli sanda (1964) eftir Magnús Blöndal Jóhannsson.

Magnús Blöndal Jóhannsson (1925–2005) var sjálfkjörinn forsprakki hinnar íslensku framúrstefnu á árunum kringum 1960. Hann hóf formlegt tónlistarnám átta ára gamall, og 11 ára varð hann yngsti nemandinn sem veitt hafði verið innganga í Tónlistarskólann í Reykjavík. Á miðjum vetri 1946 hélt hann út í hinn stóra heim og fékk inngöngu í Juilliard-tónlistarháskólann í New York, þar sem hann nam um fimm ára skeið.

Magnús sneri heim árið 1954 en í Reykjavík voru fá tækifæri fyrir nýjungagjarnan tónsmið. Hann var fyrsta íslenska tónskáldið til að semja raftónlist en verk hans mættu tómlæti; gagnrýnendur höfðu stór orð um „atómbombur“ og „útvarpstruflanir“.

Eitt laga hans náði þó að hrífa þjóðina alla. Það var Sveitin milli sanda, samið fyrir samnefnda kvikmynd Ósvalds Knudsens sem fjallaði um Öræfasveit og var þar meðal annars brugðið upp myndum af gömlum búskaparháttum. Lagið söng Ellý Vilhjálms eins og frægt er orðið og kom það út á 45 snúninga plötu vorið 1965 – ásamt laginu góðkunna Heyr mína bæn.


Sinfóníuhljómsveit Íslands og RÚV tóku í þriðja sinn saman höndum og gáfu landsmönnum kost á að ráða efnisskránni á fyrstu tónleikum hljómsveitarinnar á nýju starfsári. Í þetta sinn gafst almenningi færi á að velja uppáhalds íslensku tónsmíðina sína í tilefni 100 ára fullveldisafmælis. Hljómsveitarstjóri var Daníel Bjarnason.