Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Sveitarstjórn hafnar risahóteli við Þingvelli

05.02.2018 - 17:06
Mynd með færslu
 Mynd: GBAAA - RÚV
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar leggst gegn hugmynd um að reisa lúxushótel, heilsársbústaðabyggð, golfvöll og sundlaug á Skálabrekkujörð við Þingvelli. „Á þessu svæði finnst okkur þetta ekki passa inn í landslagið og nálægðina við þjóðgarðinn,“ segir Helgi Kjartansson, oddviti Bláskógabyggðar.

Hugmyndin, sem kynnt var fyrir sveitarstjórn í október, gerði ráð fyrir gríðarmikilli uppbyggingu á staðnum. Hún átti að vera í fimm þáttum: fyrst yrði byggt fjögurra eða fimm stjörnu, 120-160 herbergja hótel ásamt heilsulind, sundlaug og veitingastað, síðan þjónustumiðstöð ásamt tjaldsvæði, því næst tveggja til þriggja stjörnu hótel fyrir efnaminni ferðamenn, þar á eftir kæmu heilsársbústaðir ásamt íþróttasvæði og gróðurhúsum og loks yrði gerður 18 holu golfvöllur og klúbbhús. Hér að neðan má sjá frétt RÚV um málið frá því í nóvember.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar tók málið fyrir á fundi sínum 1. febrúar og í fundargerðinni segir að sveitarstjórnin geti ekki fallist á þessar upphaflegu hugmyndir. „Þetta voru bara svo stórar og miklar hugmyndir og mikil áform,“ útskýrir Helgi Kjartansson í samtali við fréttastofu. Hann segir að sveitastjórnin hafi verið einhuga um að leggjast gegn áformunum í þessari mynd – þær yrðu of mikið inngrip í umhverfið.

Mynd með færslu
Helgi Kjartansson Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV

Fái grænt ljós hjá umhverfisráðherra fyrst

Tekið er fram í fundargerðinni að sveitarstjórnin leggist ekki gegn því að landeigendur vinni áfram að hugmyndum um hótelbyggingu. Helgi segir að þær hugmyndir verði þó að vera smærri í sniðum.

Skálabrekkujörðin er inni á vatnsverndarsvæði Þingvalla og Helgi segir að mjög ströng skilyrði gildi um það sem megi gera innan þess. Þess vegna telji sveitarstjórnarmenn réttast að landeigendur snúi sér fyrst til umhverfisráðuneytisins, vilji þeir skoða frekar möguleikann á hóteluppbyggingu á svæðinu. Ráðherrann þurfi enda að gefa grænt ljós að uppbyggingu á vatnsverndarsvæði.

stigurh's picture
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV