Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Sveitarfélög fjárfesta fyrir 48 milljarða á árinu

06.02.2020 - 16:57
Mynd með færslu
 Mynd: Pixabay
Samkvæmt áætlunum sveitarfélaganna er gert ráð fyrir tæplega 48 milljarða króna fjárfestingu á árinu 2020. Það er sex prósent hækkun frá fjárhagsáætlun ársins 2019. Hins vegar er gert ráð fyrir að fjárfestingar dragist saman frá 2021 til 2023. 

 

Samband íslenskra sveitarfélaga hefur gefið út samantekt  fjárhagsáætlana sem unnin er upp úr áætlunum sem sveitarfélög vinna hvert og eitt. 70 af 72 sveitarfélögum landsins skiluðu inn slíkri áætlun. Samantektin byggir aðeins á A-hluta sveitarfélaga en er sú starfsemi sveitarfélaga sem er að hluta eða öllu leyti er fjármagnað með skatttekjum. Í B-hluta er til dæmis að finna veitur, hafnir, sorpeyðingu og félagslegt húsnæði. Þær eru í eigu sveitarfélaga og eru reknar sem fjárhagslega sjálfstæðar einingar.

Þriggja ára áætlanir 2021-2023 taka mið af spám um hagvöxt og samkvæmt því ættu tekjur að aukast miðað við það. Ef áætlanir ganga eftir fer rekstrarafgangur vaxandi sem hlutfall af tekjum og verður um fjögur prósent árið 2023. 

Samkvæmt útkomuspá sem Samband sveitarfélaga lét gera er útlit fyrir að afkoma stærstu sveitarfélaganna sé betri en áætlanir gerðu ráð fyrir á árinu 2019. Ársreikningar sveitarfélaga liggja hins vegar ekki fyrir, en þá skal leggja fyrir sveitarstjórn eigi síðar en 15. apríl hvert ár samkvæmt sveitarstjórnarlögum.

Meðalútsvar óbreytt á milli ára

Útsvar er stærsti tekjustofn sveitarfélaga. um 60 prósent heildartekna sveitarfélaga eru í gegnum útsvar. Fasteignaskattar og lóðaleiga eru rúmlega 13 prósent af heildartekjum, framlög úr jöfnunarsjóði um 12 prósent og aðrar tekjur rúmlega 14 prósent. Gert er ráð fyrir að heildartekjur A-hluta verði um 372 ma.kr. árið 2020. Þar af eru skatttekjur án jöfnunarsjóðs 274 ma.kr. Meðalútsvar verður óbreytt hjá sveitarfélögum, eða 14,44 prósent.

Nánar má lesa um fjárhagsáætlanir A-hluta sveitarfélaga hér.