Sveini Andra varð heitt í hamsi í dómsal

10.04.2019 - 14:06
Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Gígja - RÚV
Ólafur Eiríksson, lögmaður Arion banka sem krefst þess að Sveini Andra Sveinssyni verði vikið sem öðrum af tveimur skiptastjórum þrotabús WOW air, sagði að hægt væri að draga hlutlægni Sveins Andra í efa. Bréf sem Sveinn Andri sendi nokkrum opinberum stofnunum í deilu Valitors og Datacell virðist hafa verið dropinn sem fyllti mælinn. Sveinn Andri sagðist ekki hafa nein tengsl við stjórnarmenn WOW nema hann væri stundum í spinning með Skúla Mogensen. Von er á úrskurði á föstudag eftir hádegi.

Ólafur nefndi í máli sínu nokkur dæmi um hvernig væri hægt að draga hlutlægni Sveins Andra í efa en það væri ekki síst vegna framgöngu hans gegn Valitor, sem væri dótturfélag Arion banka, að vafi léki á hlutlægni hans. Hann hefði reynt að fá Valitor tekið til gjaldþrotaskipta vegna deilunnar við Datacell og í tvígang reynt að fara fram á kyrrsetningu eigna Valitors. Dómstólar hefðu hafnað öllum þessum kröfum.  

Ólafur sagði Svein Andra hafa sent bréf í eigin nafni til FME, fjármálaráðuneytisins, ríkislögmanns, Kauphallarinnar og Arion banka í tengslum við málarekstur Datacell. Í þessu bréfi hefði Sveinn Andri sakað Arion banka í eigin nafni um lögbrot. FME hefði ekki talið neina ástæðu til að bregðast við þeim ávirðingum sem birtust í bréfinu.

Ólafur sagði að það væri mat Arion banka að Sveinn Andri væri að reka mál gegn dótturfélagi Arion banka vegna kröfu upp á rúma fimmtán milljarða og að Sveinn Andri hefði af þessu máli verulegra fjárhagslegra hagsmuna að gæta, allt frá 73 milljónum upp í 624 milljónir vegna málskostnaðar.

Ólafur sakaði Svein Andra um að vega að sér persónulega í greinargerð í málinu og taldi hann ekki gera greinarmun á persónu sinni og þess fyrirtækis sem hann væri í forsvari fyrir. Þá væri í greinargerð Sveins Andra vegið að lögmannsstofu sem Ólafur ynni hjá og í henni væri að finna dylgjur sem ekki ættu við nein rök að styðjast. Þetta ætti að gera Svein Andra vanhæfan til að vera skiptastjóri WOW þar sem Arion banki yrði meðal stærstu kröfuhafa.

Sveinn Andri krafðist þess að dómurinn hafnaði kröfu Arion banka vegna vanhæfis. Sveinn Andri sagðist ekki hafa nein tengsl við stjórnarmenn WOW, hann væri þó stundum í spinning með Skúla Mogensen. Hann sagðist ekki vera í viðskiptum Arion banka en hefði, sem formaður Stúdentaráðs, verið með viðskipti við gamla Búnaðarbankann.

Hann sagði að það hefði verið góð og gild ástæða fyrir bréfinu sem hefði verið sent til ríkislögmanns, FME, fjármálaráðuneytisins og Kauphallarinnar þar sem ekki hefði verið greint rétt frá kröfu Datacell í ársreikningi Valitors.  

Hann sagði Arion banka ekki vera aðila að því máli né dótturfélag heldur dótturdótturfélag. Þá sagði hann að búið væri að taka Valitor Holding sem ætti Valitor úr samstæðureikningi bankans því það væri komið í söluferli. Sveinn Andri sagðist hafa unnið flest mál fyrir dómstólum í tengslum við þessa deilu og það hefði þurft að reka það af talsverðri harðfylgni.  

Sveinn Andri sagði að mál Arion banka væri á borði hins skiptastjórans, rétt eins og mál stórs viðskiptavinar sem hefði verið viðskiptum við lögmannsstofu hins skiptastjórans væri á borði hans. Sveinn Andri sagði að það hefði ekki hvarflað að þeim sem skiptastjórum WOW að hann kæmi nálægt þeim málum sem tengdust Arion banka. Hann sagði að skiptastjórarnir myndu vera með sama tímagjald og myndu skrifa upp á reikning hvor fyrir annan. 

Sveinn Andri sagði þessa kröfu Arion banka mega rekja til persónulegrar óvildar til hans vegna þess að hann kysi að reka mál sín af hörku.

Ólafur flutti síðan andsvar við þessari ræðu þar sem hann vísaði fullyrðingum Sveins Andra á bug. Með bréfi sínu hefði Sveinn Andri sakað Arion banka um óheiðarleika og lögbrot, og það væri ekki dæmi um að reka mál af harðfylgni því menn þyrftu að geta staðið við það sem þeir segðu. 

Sveinn Andri skaut fast á Ólaf í andsvörum sínum og spurði hvort hann væri hreinlega ekki læs. „Hverslags vitleysu er verið að bera á borð hér? Það virðast ekki vera nein takmörk fyrir því hvaða þvælu er hægt að bera á borð dómstóla?“ Þegar þar var komið sögu bað Símon Sigvaldason, dómari í málinu, Svein Andra að gæta orða sinna. Lögmaðurinn baðst afsökunar á því að hafa æst sig en fullt tilefni hefði verið til þess þegar væri verið að reyna að halda því fram að hvítt væri svart og svart væri hvítt.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV