Sveiattan syngur Jónína

26.03.2015 - 18:57
Mynd: RÚV / RÚV
Fiskverkakonu á Akranesi var svo misboðið þegar henni og samstarfsfólki hennar var launað fyrir metafköst með íspinnum, að hún samdi kjarnyrt baráttukvæði og setti það á Youtube. Yfir 14.000 hafa séð myndbandið.

 Notar tónlistarhæfileikana í baráttunni
Þótt allt stefni í kjaradeilu og verkfall er létt yfir starfsfólki HB Granda í frystihúsinu á Akranesi. Jónína Björg Magnúsdóttir situr við línuna og snyrtir fiskflök, en hún kann fleira en það. Hún er nefnilega liðtækur textasmiður og söngkona, og notar hæfileika sína í baráttunni.

 Skefur ekki utan af því
Kunningi Jónínu gerði myndbandið við Sveiattan, en meira en fjórtán þúsund manns höfðu skoðað það á Youtube í dag. Bragi Valdimar Baggalútur lagði til lagið og undirleikinn verkakonunum að kostnaðarlausu, og Verkalýðsfélag Akraness styrkti Jónínu um 40.000 krónur fyrir tíma í hljóðveri. Formaður félagsins, Vilhjálmur Birgisson, fær líka hlýja kveðju í textanum, en þau Jónína ólust upp í sömu götu á Skaganum. Jónína er ekkert að skafa utan af því í textanum - hann er klúr á köflum - en hún segir nauðsynlegt að ganga fram af fólki.

sigridurhb's picture
Sigríður Hagalín Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV
arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV