Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Svartir svanir við Dyrhólaey

22.03.2015 - 11:50
Mynd: Gunnar Þór Gunnarsson / Gunnar Þór Gunnarsson
Mynd með færslu
 Mynd: Gunnar Þór Gunnarsson
Mynd með færslu
 Mynd: Gunnar Þór Gunnarsson
Mynd með færslu
 Mynd: Gunnar Þór Gunnarsson
Mynd með færslu
 Mynd: Stefán Þorvarðarson
Mynd með færslu
 Mynd: Stefán Þorvarðarson
Svart álftapar spókaði sig á lóni við Dyrhólaey í fyrradag. Gunnar Þór Gunnarsson var á staðnum ásamt hópi ferðamanna. „Ég hef ekki séð svarta svani áður. Ég heyrði af þeim í fréttum fyrir nokkrum árum, ég held að enginn í hópnum hafi séð þá áður þannig að þetta var rosalega gaman,“ segir Gunnar.

Hann segir að svanirnir hafi verið myndaðir í bak og fyrir.„Fólk sá að það var eitthvað að gerast þannig að margir fleiri stoppuðu og skoðuðu þá,“ segir hann.

Svanaparið enn á lóninu

Svo virðist sem svanaparið ætli sér að staldra aðeins við á lóninu en Stefán Þorvarðarson, rútubílstjóri, sá þá þar í morgun. Hann tók tvær af myndunum sem fylgja fréttinni. Stefán hafði aldrei séð svartsvanapar áður. Með honum í bílnum voru tíu Frakkar. Hann segir að þeir hafi ekki verið jafn upprifnir yfir þessari sjón og hann. Þeir hafi ekki áttað sig á því hversu sjaldgæfir svartir svanir væru hérlendis.

Sá eftir að hafa ekki myndað

„Aðalljósmyndarinn í hópnum sá eftir því að hafa ekki tekið myndir, þegar hann áttaði sig á því hversu sjaldgæfir þeir eru,“ segir hann og bætir við að hann hafi nokkrum sinnum ferðast með fuglaskoðara sem leituðu dyrum og dyngjum að svörtum svönum en fundu ekki. 

Flækjast nær árlega til Íslands

Svartur litur á svönum, sem og öðrum fuglum og spendýrum, stafar af litarefninu melanín í fjöðrunum. Alhvítir svanir eru án þessa litarefnis í fiðrinu.Svartsvanir flækjast nær árlega til Íslands og eru taldir koma úr dýragörðum í Evrópu. Flestir þeirra koma ásamt hópi hvítra álfta frá Bretlandi.

Ekki alveg svartir

Til eru sex svanategundir í heiminum, fjórar þeirra halda sig jafnan á Norðurhveli jarðar og tvær á Suðurhveli. Svanirnir eru allir gráleitir fyrsta árið en liturinn skerpist eftir það. Norðlægu tegundirnar eru orðnar hvítar á fiður þegar eins árs aldri er náð. Í Suður-Ameríku er svanstegund sem er svört um höfuð og háls en hvít að öðru leyti og í Ástralíu er svanstegund sem skartar svörtum fjöðrum alls staðar nema á vængjum. 

 

 

 

 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV