Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Svartfugl drepst vegna næringarskorts

17.02.2017 - 12:37
Mynd með færslu
 Mynd: Sigurður Ólafsson
Óvenjumikið hefur fundist af dauðum svartfugli í fjörum norðanlands í vetur. Líffræðingur segir vannæringu líklegustu skýringuna - því fuglinn sé grindhoraður.

Það er algengt að dauðan svartfugl reki á land yfir veturinn en nú fréttist af óvenjumiklum fugladauða á ákveðnum svæðum fyrir norðan. Yann Kolbeinsson, líffræðingur hjá Náttúrustofu Norðausturlands, segir dauðan fugl meðal annars hafa rekið á fjörur við Skjálfandaflóa og Húsavík, en einnig í Kelduhverfi.

Mest langvía og álka

„Þetta eru allar tegundir svartfugla,“ segir Yann. „Við höfum heyrt af og séð myndir af langvíu, álku, stuttnefju, lunda og haftyrðli. En það virðist vera að langvían og álkan séu í meirihluta.“  

Fuglarnir grindhoraðir

Hann segir að næringarskortur sé líklegasta skýringin, þó það hafi ekki verið rannsakað að fullu. „Fuglarnir allavega, sem finnast, eru grindhoraðir. Og það hefur áður verið rannsakað í svona árum, þar sem verið hefur mikill svartfugladauði, þá var fuglum safnað og þeir krufðir. Næringarskortur virtist vera orsökin í flestum ef ekki öllum tilfellum.“

Ekki vitað almennilega af hverju fuglinn nærist ekki

En Yann segir ekki vitað almennilega hvað veldur næringarskortinum. „Hvort það tengist aðgengi að fiski eða átu úti á sjó, eða hvort þetta tengist veðurfari eða öðru er kannski erfiðara að segja til um.“    

 

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV