Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Svanskjóll Bjarkar til sýnis á Met Gala

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons

Svanskjóll Bjarkar til sýnis á Met Gala

07.05.2019 - 18:02

Höfundar

Fátt vakti jafn mikla athygli og svanskjóll Bjarkar Guðmundsdóttur á Óskarsverðlaunahátíðinni 2001. Kjóllinn var hafður til sýnis á Met Gala í New York, sem í ár var helgað hugleiðingum Susan Sontag um camp-fagurfræði.

Árleg fjáröflun búningadeildar Metropolitan listasafnsins í New York, Met Gala, þar sem frægðarmenni sýna sig og sjá önnur í íburðarmiklum flíkum, fór fram í gær.

Þemað í ár var byggt á áhrifamikilli ritgerð Susan Sontag, rithöfundar og heimspekings, Notes on Camp, en hún innihélt hugleiðingar um ákveðna tegund fagurfræði sem á rætur sínar að rekja til hinsegin menningar og einkennist af meðvituðu smekkleysi, ýkjum og sjálfshæðni.

Metropolitan hefur af því tilefni sett upp sýningu þar sem flíkur sem endurspegla camp-fagurfræði eru hafðar til sýnis. Þar má til dæmis sjá ostrukjólinn sem Cardi B klæddist á Grammy-verðlaunahátíðinni um árið, regnbogaskikkju frá Burberry, Crocs skó frá Balenciaga og svanskjól Bjarkar Guðmundsdóttur, sem stal senunni á Óskarsverðlaunahátíðinni 2001 þegar lagið I've seen it all úr kvikmyndinni Dancer in the Dark var tilnefnt.

Kjólinn hannaði makedónski fatahönnuðinum Marjan Pejoski. Hann vakti nokkra hneykslan og var fjallað um hann í heimspressunni í margar vikur eftir Óskarshátíðina. Blaðamaður Boston Globe sagði til að mynda að Björk hefði litið út eins og flóttamaður úr hrörlegri og ófágaðri hverfum ballettheimsins og misgóðir grínistar hafa nýtt sér hann sem efnivið í uppistandi, sjónvarpsþáttum og kvikmyndum í mörg ár. 

Fatahönnuðurinn Valentino gerði sína útgáfu af kjólnum árið 2014, og hlaut lof fyrir, og kjóllinn er gjarnan nefndur á nafn þegar eftirminnileg atvik af rauða dreglinum eru rifjuð upp.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Björk heldur átta stórtónleika í New York

Tónlist

Allar plötur Bjarkar á fjöllita spólum

Tónlist

Wu-Tang-rappari segir Björk vanmetna

Tónlist

Finnst áhrif sín á íslenska tónlist vanmetin