Suu Kyi ætlar til Haag

21.11.2019 - 09:14
Erlent · Asía · Mjanmar
epa06201620 (FILE) - Myanmar's State Counselor Aung San Suu Kyi talks to rural youth during her peace talk conference meeting with Myanmar rural youth at the Myanmar Convention Center - 2 in Naypyitaw, Myanmar, 11 April 2017 (reissued 13 September
Aung San Suu Kyi, leiðtogi Mjanmar. Mynd: EPA-EFE - EPA
Aung San Suu Kyi, leiðtogi Mjanmar, ætlar að fara fyrir hópi landa sinna til að verjast ásökunum um þjóðarmorð gegn Róhingjum fyrir alþjóðadómstólnum í Haag. Talsmaður hersins í Mjanmar segir að bæði herinn og borgaraleg stjórnvöld styðji þessa ákvörðun Suu Kyi.

Það er Afríkuríkið Gambía sem höfðar málið fyrir hönd Samtaka múslimaríkja, sem í eru 57 ríki. Málflutningur hefst í næsta mánuði. Stjórnvöld í Mjanmar eru sökuð um að brjóta gegn sáttmála Sameinuðu þjóðanna um þjóðarmorð með framgöngu hersins gegn Róhingjum í Rakhine-héraði fyrir tveimur árum.

Um 740.000 Róhingjar flýðu þá til Bangladess og sökuðu herinn í Mjanmar um margvísleg ódæðisverk, morð og nauðganir.

Það kom flestum á óvart  þegar sú tilkynning barst í gær um að Suu Kyi ætlaði að fara fyrir liði verjenda landsins til Haag. Suu Kyi nýtur mikilla vinsælda í heimalandi sínu og flokkssystkin hennar segja hana sýna mikið hugrekki með því að fara til Haag.

Fréttastofan AFP hefur eftir Richard Horsey, óháðum sérfræðingi, að þótt þetta útspil Suu Kyi mælist vel fyrir í heimalandi hennar, komi hún til með að reyna að verja hið óverjanlega, sem vekja muni upp spurningar um siðferði hennar og hugsanlegt saknæmi.

Fleiri málshöfðanir gegn Mjanmar eru í undirbúningi. Í síðustu viku heimilaði Alþjóðaglæpadómstóllinn í Haag rannsókn á meðferðinni á Róhingjum, en þar sem Mjamar á ekki aðild að glæpadómstólnum viðurkenna stjórnvöld ekki lögsögu hans.

Þriðja málið er í undirbúningi fyrir dómstólum í Argentínu, en að því standa nokkur mannréttindasamtök.

 

Kristján Róbert Kristjánsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi