Sundlaugum og líkamsræktarstöðvum lokað - árskort fryst

Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Allar sundlaugar í Reykjavík, og annars staðar á landinu, verða lokaðar frá og með morgundeginum, þriðjudeginum 24. mars. Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg segir að öll 6 og 12 mánaða kort í sundlaugarnar verði framlengd um þann tíma sem laugarnar verða lokaðar.

Þá kemur fram að Fjölskyldu og húsdýragarðinum verði einnig lokað frá og með morgundeginum, sem og Skautahöllinni. Ylströndin í Nauthólsvík verður áfram lokað.

Þá verða allar líkamsræktarstöðvar lokaðar frá og með morgundeginum. Á heimasíðu World Class kemur fram að tímabilinu sem verður lokað verði bætt aftan við áskriftir korthafa.

Söfnum og skíðasvæðum lokað

Þá kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg að öllum söfnum borgarinnar verði lokað frá og með morgundeginum, vegna herts samkomubanns.

„Innri starfsemi safnanna verður þó með óbreyttu sniði og starfsfólk mun eftir sem áður svara erindum og sinna rannsóknum, skráningum og undirbúningi nýrra sýninga síðar á árinu. Ekki verða lagðar sektir á safnkost bókasafnsins á tímabilinu og gildistími Menningarkorta framlengist um sem nemur lokunartíma safnanna,“ segir í tilkynningunni.

Þetta þýðir að öllum bókasöfnum verður lokað í Reykjavík, Listasafni Reykjavíkur í Hafnarhúsi, Kjarvalsstöðum og á Ásmundarsafni sem og eftirfarandi sýningarstöðum Borgarsögusafns: Landnámssýningunni, Sjóminjasafni Reykjavíkur, Ljósmyndasafni Reykjavíkur og safnsvæði Árbæjarsafns.

Áhugasömum er bent á vefsíður safnanna þar sem finna má ýmsan fróðleik, svo sem um sýningar, listaverk, gamlar ljósmyndir, rannsóknarskýrslur og safnmuni.

„Á vefsíðu Listasafns Reykjavíkur er einnig efni sem nota má í fjarkennslu og á morgun fer safnið af stað með listaverk dagsins í öllum sínum miðlum. Þá er vert að benda á app listasafnsins um útilistaverk í Reykjavík sem hægt er að nýta í gönguferðum um borgina,“ segir í tilkynningunni.

Loks hefur skíðasvæðum á höfuðborgarsvæðinu verið lokað vegna faraldursins. Það á bæði við um Bláfjöll, Skálafell og einstakar skíðalyftur í hverfum.

johann's picture
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi