Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands mældust níu eldingar á þeim rúmlega hálftíma sem veðrið gekk yfir Þorlákshöfn.
Óli Þór Árnason, veðurfræðingur á veðurstofunni, segir að enn séu bólstrar í myndun sem gætu gefið eldingar en það sé jafn líklegt og það sé ólíklegt. „Það eru ýmsir útvaldir en ekkert sjálfgefið,“ segir Óli.
Hann telur hins vegar ólíklegt að eldingaveðrið nái yfir til höfuðborgarsvæðisins þar sem hafgolan gæti haldið bólstrunum í burtu. Það gæti þó gerst þegar hafgolan gefur eftir.
Hákon póstburðarmaður segist aldrei hafa séð annað eins og líkir þessu við bíómynd. Undir það tekur starfsmaður í ráðhúsinu sem tók myndskeið af rigningunni sem sést hér að ofan.
Heilbrigðisstofnun Suðurlands vakti athygli á hættunni á þrumuveðrinu í gær og bað fólk um að fara upp úr heitum pottum og sundlaugum ef það yrði þrumuveðursins vart. Samkvæmt upplýsingum frá sundlauginni í Þorlákshöfn voru talsvert margir í sundlauginni þegar veðrið hófst og var fólk beðið um að fara í innilaugina á meðan á því stóð. Starfsmaður sundlaugarinnar sagði fólk þó hafa haldið ró sinni.