Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Sundabraut og veggjöld tefja undirritun

19.09.2019 - 19:00
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fyrir tíu dögum kynnti Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra drög að samkomulagi fyrir kjörnum fulltrúum sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu og stjórnarþingmönnum í kjölfar þess. Stefnt var að því að undirrita samkomulagið í framhaldinu en það hefur ekki enn verið gert.

 

Í samkomulaginu er gert ráð fyrir að um 120 milljörðum króna verði varið til vegamála á höfuðborgarsvæðinu á næstu 15 árum. Undanfarna tíu daga hefur samgönguráðherra unnið að breytingum á drögunum og fengu bæjarstjórar á höfuðborgarsvæðinu og borgarstjóri drögin í hendurnar í gærkvöld og í dag.

Gunnar Einarsson, bæjarstjóri í Garðabæ, sagði við fréttastofu í morgun að ekki kæmi til greina að skrifa undir þau því í þeim væru setningar sem hann hafi ekki umboð til að skrifa undir. Hann situr í stýrihópi sveitarfélaganna sem hittist í dag til að fara yfir nýju drögin.

Fréttastofa hefur margítrekað reynt að ná í þá sem sitja í stýrihópnum sem og samgönguráðherra í dag, án árangurs. Samkvæmt heimildum fréttastofu hefur stýrihópurinn setið á fundi í dag með ráðherranefndinni sem fer með málið en í henni eiga sæti Sigurður Ingi, Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. 

Vilhjálmur Árnason, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis, sagði í samtali við fréttastofu í dag að inn í drögin hafi meðal annars verið bætt málsgrein um tengingu við Sundabraut við Holtagarða. Ríkisstjórnin hefur lagt áherslu á að hefja framkvæmdir við Sundabraut á þessu kjörtímabili en deilur hafa verið milli ríkis og borgar um legu Sundabrautar um langa hríð.

Í sumar kynnti samgönguráðherra skýrslu starfshóps þar sem tveir kostir voru taldir fýsilegastir, svokölluð innri leið með lágbrú og ytri leið með jarðgöngum. Í framhaldinu sagði ráðherra að hann aðhylltist lágbrúarkostinn og hann vilji hefja undirbúning að framkvæmdinni - en tenging hennar er við Holtagarða. 

Samkvæmt heimildum fréttastofu var einnig gerð breyting á samkomulagsdrögunum varðandi útfærslu veggjalda. Þá vildu stjórnarflokkarnir fella samkomulagið betur að samgönguáætlun sem Alþingi ynni eftir.