Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Sundabraut leysir ekki teppu í Ártúnsbrekku

Mynd: RÚV / RÚV
Sundabraut mun ekki leysa umferðarvanda í Ártúnsbrekku þótt hún greiði að einhverju leyti úr umferðarflæði í gegnum borgina. Hún styður ekki við áherslur um aukið hlutfall almenningssamgangna í umferð heldur getur þvert á móti stuðlað að fjölgun einkabíla. Ferðatími milli Kjalarness og miðborgarinnar getur þó styst um allt að þrjár klukkustundir á viku, og flóttaleiðir út úr höfuðborginni verða tryggari. 

Í áratugi á teikniborðinu

Sundabraut hefur verið á teikniborðinu frá því um miðjan áttunda áratuginn. Birgir Ísleifur Gunnarsson var borgarstjóri 1977 þegar Sundabraut var fyrst kynnt og 1985 var hún fyrst samþykkt í aðalskipulag Reykjavíkur. Samtals hafa minnst sex borgarstjórar og sjö ráðherrar tekið ákvarðanir um Sundabraut - ýmist af eða á. Nú síðast tilkynnti Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra að ráðast skuli í gerð Sundabrautar í einkaframkvæmd og boðar nýtt frumvarp í nóvember.

Bent hefur verið á tvo kosti við þverun Kleppsvíkur. Annars vegar með lágbrú úr Gufuneshöfða yfir á athafnasvæði Samskipa við Holtaveg við Holtagarða og hins vegar jarðgöng sem myndu koma á land miklu utar.

Sigurður Ingi segir lágbrú betri kost því hún muni nýtast gangandi og hjólandi betur. Auk þess verður hún betur nýtt því tengingar við hana inn í Grafarvog annars vegar og við Sæbraut hins vegar eru betur staðsettar.

Sundabrautin á að liggja frá Sundahöfn yfir Kleppsvík og að Gufuneshöfða,  gegnum Gufunesið og að Geldinganesi. Þar fer hún áfram yfir í Álfsnes og loks yfir Kollafjörð og upp á Kjalarnes. 

Mikilvæg flóttaleið og bætir umferðarflæði í gegnum borgina

Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra segir Sundabrautina mikilvæga nýja flóttaleið út úr höfuðborginni auk þess sem hún auki flæði umferðar frá Grafarvogi og Kjalarnesi, ekki síst fyrir þá sem þurfa að fara í gegnum borgina, til dæmis á leið til Keflavíkur.

Samkvæmt skýrslu, sem unnin var fyrir samgönguráðuneytið og kom út í júlí, er heildarkostnaður við Sundabraut um lágbrú talinn vera um 60 til 70 milljarðar króna. Skip geta ekki siglt undir lágbrú og því bætist við framkvæmdina óútreiknaður kostnaður við breytingar á skipulagi Sundahafnar vegna legu brautarinnar þar í gegn. Ákveðið hefur verið að verkið verði einkaframkvæmd en gjaldtaka hefur ekki verið útfærð.

Þriggja tíma stytting frá Kjalarnesi á viku

Í skýrslunni kemur fram að jákvæð áhrif Sundabrautar eru þau að vegalendin upp á Kjalarnes mun styttast um níu kílómetra, umferðarálag í Ártúnsbrekku mun minnka og ný tenging verður við Grafarvog auk þess sem umferðarflæði um borgina mun batna. Neikvæðu áhrifin eru hins vegar þau að álagið á Sæbrautina mun aukast, auk þess sem hætta er á því að einkabílum muni fjölga á kostnað almenningssamgangna. 

Níu kílómetra stytting þýðir að ferðatími styttist um allt að tuttugu mínútur í hverri ferð ef ferðast er á háannatíma frá Kjalarnesi niður í miðborg. Ef ekið er fram og til baka, fimm daga vikunnar þýðir það tímasparnað upp á allt að þrjár klukkustundir á viku.

Hvað varðar umferðarálag í Ártúnsbrekku á mestu álagstímum - sem mikið hefur verið kvartað undan í vetur - hefur Sundabraut í raun lítil áhrif. 

Bílum í Ártúnsbrekku fækkar lítið frá því sem nú er

Samkvæmt útreikningum frá VSÓ ráðgjöf og fram kemur í skýrslunni verður umferðin í Ártúnsbrekku árið 2030, þegar borgarlínan og Sundabraut verða komin í notkun, samt sem áður 85 þúsund bílar á sólarhring. Umferðin núna er 100 þúsund bílar.

Munurinn er því 15 þúsund á sólarhring, sem þýðir að fyrir hverja hundrað bíla í röð verður fimmtán færra árið 2030 en nú. Bílum mun fjölga til ársins 2030 samkvæmt spám og ef ekki yrði farið í Sundabraut myndi umferðarálag í Ártúnsbrekku aukast nokkuð frá því sem nú er.

Gert er ráð fyrir því að um 30 þúsund bílar muni aka um Sundabraut á sólarhring. Sú umferð mun því bætast inn á Sæbraut og umferðin þar verður tvöföld á við nú. 

Smári Ólafsson samgönguverkfræðingur segir að margar framkvæmdir séu brýnni en Sundabrautin. „Miklabraut í stokk myndi gagnast mun fleirum. Sundabraut er framkvæmd sem gagnast aðallega þeim sem vilja ferðast um í einkabíl meðan stokkalausnir á Sæbraut og Miklubraut, eða aðrar lausnir. hjálpa til við þéttingu byggðar og einnig þeim sem vilja ferðast á hjóli eða fótgangandi eða með almenningssamgöngum,“ segir hann. „Það gagnast svo mörgum því það er líka það sem hjálpar bílaumferðinni einna mest, það er ef við fækkum bílunum,“ segir hann.

Sundabraut getur aukið heildarumferð

Sundabraut er samkvæmt skýrslunni líkleg til að auka heildarumferð og letja fólk til að velja almenningssamgöngur umfram einkabílinn. Það eykur jafnframt loftmengun, meðal annars í formi svifryks. 

Sigurður Ingi segir það vissulega rétt. „Ef Íslendingar ætluðu að ná öllum markmiðum sínum í loftslagsmálum fyrst og fremst með því bara að minnka umferð og fólk færi bara hjólandi og gangandi og í strætó þá eru auðvitað ný umferðarmannvirki ekki að vinna í þá áttina,“ segir hann. Það breyti því þó ekki að fjöldi fólks búi í talsverðri fjarlægð frá atvinnukjörnum og geti því hvorki gengið né hjólað í vinnu, auk þess sem almenningssamgöngur séu ekki alls staðar nægilega góðar. „Þá erum við með bíl sem innan fárra ára verður knúinn áfram af nýorku, vetni, rafmagn, metan. Við munum ná markmiðum okkar í loftslagsmálum, en þetta er bara eitt af því sem við þurfum að gera til að bæta lífsgæði fólks,“ segir hann.

Horfa má á fréttaskýringuna í spilaranum hér að ofan.