„Sumum líður illa með þetta“

Mynd: Guðmundur Bergkvist / RÚV
Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík, segir að viðbrögð heimamanna við jarðskjálftum séu misjöfn. Sumum líði illa sem eðlilegt sé meðan aðrir telji að skjálftarnir boði ekkert válegt.

„Ég fann greinilega fyrir honum. Þetta er sá stærsti í þessari hrinu sem hefur dunið á okkur,“ sagði Fannar í hádegisfréttum í útvarpi aðspurður hvort hann hefði orðið skjálftanna var. Stærsti skjálftinn var 4,3. „Ég held í sjálfu sér alveg ró minni. Þetta er þó óneitanlega ónotalegt og sumum líður illa með þetta sem eðlilegt er. Aðrir líta á þetta sem gefinn hlut, að þetta geti haldið eitthvað áfram núna. Svo eru þeir brottustu sem telja að þetta boði ekkert válegt.“

„Það er auðvitað óþægilegt að fá svona snarpa skjálfta og eðlilega líður fólki illa,“ sagði Fannar. Ég hvet alla til að fylgjast mjög vel með framvindu mála, leita sér upplýsinga, fara inn á almannavarnir.is og vedur.is og vera við öllu búin, ef eitthvað ber að höndum þannig það það þyrfti að yfirgefa híbýli, þá þurfa bæði einstaklingar, fjölskyldurnar og fyrirtækin að vera undirbúin.“

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi