Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Súmötrutígrafóstur í fórum veiðiþjófa

09.12.2019 - 07:00
epa07747071 Indrah, a nine-year-old Sumatran Tiger during International Tiger Day at Melbourne Zoo in Melbourne, Australia, 29 July 2019.  EPA-EFE/DANIEL POCKETT AUSTRALIA AND NEW ZEALAND OUT
 Mynd: EPA
Fimm voru handtekin á eynni Súmötru í Indónesíu eftir að yfirvöld fundu dauðan súmötrutígur og fjögur fóstur súmötrutígra í krukku. Fréttastofa CNN greinir frá. Yfirvöld fengu ábendingu um að fólkið stæði í veiðiþjófnaði. Þrjú voru handtekin á laugardag, og tvö til viðbótar eftir að fóstrin fundust í krukkunni. Eins var lagt hald á feld af fullorðnum tígri í aðgerð lögreglunnar.

Súmötrutígrar eru í útrýmingarhættu. Yfir þúsund dýr voru í stofninum á eyjunni árið 1978, en vegna skógarhöggs og veiðiþjófnaðar eru ekki nema um 400 dýr eftir. Samkvæmt TRAFFIC, stofnunar á vegum Alþjóðadýraverndunarsamtakanna WWF og Alþjóðanáttúruverndarstofnunarinnar IUCN, drepa veiðiþjófar minnst 40 súmötrutígra á ári. Sífellt verður auðveldara að finna dýrin þar sem kjörlendi þeirra minnkar. Skógarhögg hefur helmingað skóglendi Súmötru frá 1985.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV