Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Sumir þingmenn misskilja málið

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Sumir þingmenn virðast hafa misskilið málið að nokkru leyti, sagði Sigurður Ingi Jóhannsson sveitarstjórarráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í morgun þegar hann var spurður út í þingsályktunartillögu um lágmarksfjölda íbúa sveitarfélaga. Tillagan var samþykkt á Alþingi í gær en þrír stjórnarþingmenn sátu hjá við atkvæðagreiðslu. Einn þeirra kallar tillöguna ofbeldi.

Í þingsályktunartillögunni er gert ráð fyrir því að sett verði lög um að lágmarksfjöldi íbúa sveitarfélaga verði 250 árið 2022 og eitt þúsund árið 2026.

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, tók málið upp í morgun og sagði algjörlega ólíðandi að þvinga sveitarfélög í sameiningu sem þau kærðu sig ekki um. Hún greiddi atkvæði gegn tillögunni í gær líkt og aðrir samflokksmenn hennar auk þingmanna Miðflokksins og Pírata. Þrír stjórnarþingmenn sátu hjá, Sjálfstæðismennirnir Brynjar Níelsson og Óli Björn Kárason auk varaþingmanns VG, Bjarna Jónssonar.

Óli Björn sagði í umræðum um málið á Alþingi í fyrradag að hann væri í flestu sammála því sem lagt væri til í þingsályktunartillögunni. Eitt atriði standi þó í honum því það gangi gegn öllum grunnhugmyndum hans að þvinga með lögum fram ákveðin markmið og svipta íbúa í sveitarfélögum þeim rétti að taka ákvörðun um sín eigin mál. 

„Ég mun aldrei skrifa upp á slíka lögþvingun, ég mun alltaf berjast gegn slíkri lögþvingun vegna þess að ég lít á það sem ofbeldi,“ sagði Óli Björn.

Sigurður Ingi Jóhannsson sagði í morgun að málið væri unnið í mjög nánu samstarfi við sveitarfélögin í mjög langan tíma. „Það breytir því ekki að það eru alltaf einhverjir aðilar á hverjum tíma sem eru ekki návæmlega sammála þeim níutíu prósentum sem eru þessu sammála, og því að þetta sé til þess að styrkja sveitarstjórnarstigið,“ sagði Sigurður Ingi.

Hann sagðist hafa skynjað í umræðunni á Alþingi að sumir þingmenn hefðu misskilið málið að nokkru leyti. „Ég tel að þetta sé ekki lögþvingað, menn hafa talsverðan tíma til þess að koma til móts við þetta og í frumvarpssmíðinni verður að auki tekið tillit til þeirra athugasemda sem komu fram í þinginu og birtust í gær,“ sagði hann.