Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Sumarið helmingi lengra en vetur í Ástralíu

02.03.2020 - 04:50
Mynd með færslu
 Mynd: NASA - Wikimedia Commons
Ástralska sumarið er orðið tvöfalt lengra en veturinn samkvæmt mælingum veðurfræðinga. Síðustu tuttugu ár hefur sumarið verið um mánuði lengra en það var um miðja 20. öldina. Á sama tíma hefur vetrartíminn styst. Á milli áranna 2014 og 2018 var sumartíminn svo orðinn um helmingi lengri.

BBC hefur eftir Richie Merzian, sérfræðingi við áströlsku veðurstofuna, að mælingarnar sýni ekki áhrif loftslagsbreytinga í framtíðinni, heldur áhrif sem þær hafa þegar haft. 

Niðurstöður áströlsku veðurstofunnar sýna að sumartíðin í landinu varði 31 dögum lengur frá 1999 til 2018 heldur en hún gerði um miðja síðustu öld. Á sama tíma hefur vetrartíðin orðið um 23 dögum styttri. Breytingarnar hafa orðið enn meiri á sumum svæðum Ástralíu. Þannig er sumarveður nú sjö vikum lengur í Port Macquarie í Nýja Suður-Wales en um miðja 20. öldina. 

Hitamet hafa verið slegin í landinu undanfarið ár. Hitinn ásamt óvenju mikilli þurrkatíð olli einhverjum verstu gróðureldum sem orðið hafa í landinu. Vísindamenn sögðu loftslagsbreytingar ekki hafa haft bein áhrif á eldana. Þeir hafi þó varað við því fyrir löngu að heitara og þurrara loftslag ætti eftir að valda fleiri og verri gróðureldum í landinu.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV