Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Sumarhúsaeigendur flýja lúsmý

01.07.2019 - 20:02
Mynd: Jónsson / Jóhannes
Formaður Félags sumarhúsaeigenda segir fólk farið að veigra sér við að fara í sumarbústaðaferðir í sumar af ótta við lúsmý. Vargurinn er bundinn við Suðurlandið eins og er, hvar meira en helmingur allra sumarhúsa landsins eru staðsett.

Bitu fyrst í Hvalfirði 2015

Það eru liðin fjögur ár síðan hið mjög svo óvinsæla lúsmý gerði fyrst vart við sig beggja vegna Hvalfjarðar. Undanfarnar vikur hafa fregnir af bitum, uppseldum lyfjum og flugnafælum verið áberandi í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum. Ofnæmislæknir sagði við RÚV fyrr í sumar að viðbrögð við bitum séu mjög einstaklingsbundin, en þetta gæti farið svo að við mynduðum með okkur eins konar ónæmi gagnvart þeim, þó ekki í náinni framtíð. 

Lítið vitað um lífshættina

Vísindamenn Náttúrufræðistofnunar hafa undanfarið sankað að sér upplýsingum um lúsmýið, sem er lýst sem blóðsugu á mönnum og dýrum og eina blóðsugan hér á landi af lúsmýsætt. Kvendýrin þurfa blóð til að þroska egg sín, en að öðru leyti eru lífshættir þessarar tegundar nánast óþekktir, bæði hér á landi og erlendis. 

En það er ljóst að flugurnar hafa dreift rækilega úr sér og eru nú að bíta fólk um mest allt Suðurland. 

Nú hafa tilkynningar um bit borist frá Mosfellsbæ, Grafarvogi, Hafnarfirði, Leirársveit, Melasveit og Skorradal, Laugardal og Biskupstungum. En kjörlendi lúsmýsins er nálægt vatni og þeir eru ófáir sumarbústaðirnir á sömu svæðum. 

Langflestir sumarbústaðir á Suðurlandi

Meira en helmingur allra sumarhúsa á Íslandi er á Suðurlandi. Samkvæmt Þjóðskrá eru tæplega 13.400 sumarhús á landinu öllu, þar af 6.800 á Suðurlandi.  

Fjölmargir sumarhúsagestir á Suðurlandi hafa orðið fyrir barðinu á lúsmýinu í sumar, enda veðrið búið að vera með eindæmum gott og aðstæður kjörnar fyrir flugurnar.

Formaður Landsambands sumarhúsaeigenda, Sveinn Guðmundsson, segir fólk veigra sér við að fara í sumarhús vegna mýsins. Þá sé hægt að grípa til ýmissa ráðstafana til að koma í veg fyrir að verða bitin. Fatnaður sem hylur líkamann vel, þétt net í glugga og að taka inn b-vítamín og níasín eru allt ráð sem Sveinn mælir með.