Fyrstu tónleikarnir voru með Ásgeiri Trausta og honum til liðsinnis var Júlíus Aðalsteinn Róbertsson. Þeir fluttu lög af öllum þremur plötum Ásgeirs Trausta en þó ekki við dynjandi lófatak þar sem engir áhorfendur voru í salnum. Tónleikunum var hins vegar streymt á vef RÚV og Facebook síðu Hljómahallarinnar auk þess sem þeim var útvarpað í beinni á Rás 2.
Fjöldi tónlistarfólks á Íslandi streymir nú tónleikum til aðdáenda á netinu. Ríkisútvarpið er til að mynda með daglegar útsendingar frá Hörpu og í kvöld verða tónleikar Valdimars sýndir á RÚV 2 og þeim verður einnig útvarpað á Rás 2.
Þetta endurspeglar nýjan raunveruleika tónlistarfólks á Íslandi eftir að samkomubann tók gildi. Meðal listafólks og hljómsveita sem streyma nú tónleikum á netinu má nefna Sinfóníuhljómsveit Íslands, en sveitin býður nú upp á dagleg streymi í samstarfi við Íslensku óperuna.
Í kvöld hafði hljómsveitin Valdimar fyrirhugað að halda 10 ára afmælistónleika sína í Eldborg en sveitin neyddist til að fresta tónleikunum. Í staðinn færa þeir tónleikana inn í stofur landsmanna með tónleikum í húsakynnum Exton í Kópavogi. Þaðan verður tónleikunum sjónvarpað á RÚV 2 og útvarpað í beinni á Rás 2. Þá verður einnig hægt að fylgjast með tónleikunum á Facebook-síðu Valdimars. Tónleikarnir í kvöld hefjast klukkan 21:05.