Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Sullar alltaf eitthvað í undirmeðvitundinni

Mynd: RÚV / MTV / RÚV / MTV

Sullar alltaf eitthvað í undirmeðvitundinni

16.05.2019 - 09:00

Höfundar

„Ef þú ert alæta á tónlist þá er alltaf eitthvað að sulla í undirmeðvitundinni sem kemur svo út þegar þú ert að skapa,“ segir Jónína Björg Magnúsdóttir tónlistarkona og fyrrverandi fiskverkakona um öll þau ólíku áhrif sem bandaríska tónlistarkonan Billie Eilish sýður saman á plötu sinni When We All Fall Asleep, Where Do We Go?

Hljómplata hinnar sautján ára gömlu Billie Eilish, When We All Fall Asleep, Where Do We Go? hefur vægast sagt slegið í gegn en platan kom út í lok mars. Ofurstjarnan Billie Eilish þykir koma eins og ferskur andblær með plötu sína inn á alla vinsældarlista en tónlistarkonan unga syndir á móti straumnum í tónlist og tísku samtímans. Platan var til umræðu í Lestarklefanum þar sem þau Alma Mjöll Ólafsdóttir blaðakona og sviðshöfundur, heimspekingurinn Valur Brynjar Antonsson og Jónína Björg Magnúsdóttir tónlistarkona og fyrrverandi fiskverkakona voru gestir Kristjáns Guðjónssonar.

„Ég hafði ekki heyrt um hana. Ég er með svona ofnæmi fyrir vælusöng og ef ég má segja það hreint út, það sem ég kalla píkupopp,“ segir Jónína Björg sem ekki er hrifin af væmni í tónlist. „Þannig að ég er afskaplega glöð að heyra þessa ungu konu syngja með þessari fallegu rödd. Sú tónlist sem ég hef sungið í gegnum ævina er sú sem hefur eitthvað að segja. Hún hefur virkilega eitthvað að segja og það heillaði mig afskaplega mikið. Þegar ég fór að skoða textana hennar. Ekki spillir svo fyrir að hún er á írskum og skoskum ættum,“ segir Jónína.

Mynd með færslu
 Mynd: Guðný Rós Þórhallsdóttir
Jónína Björg Magnúsdóttir, Alma Mjöll Ólafsdóttir og Valur Brynjar Antonsson krufðu nýjustu plötu Billie Eilish.

Valur Brynjar hafði ekki heyrt um tónlistarkonuna fyrr. „Þegar ég heyrði þetta fyrst þá hélt ég að þetta væri Lana Del Rey. Þegar ég svo fletti Eilish upp þá kemur í ljós að hún þolir víst ekki að vera borin saman við hana. Það eru fimmhundruð milljón spilanir á Youtube þannig að ég er greinilega ekki að fylgjast nægilega með. Ég hlustaði á þetta,“ segir Valur Brynjar sem greindi nýja tóna í lögum Eilish og hugsaði hvort nýir tímar væru í popptónlist. Valur tók lagið Lovely sem dæmi en þar syngur hún dúett með bandaríska tónlistarmaninum Khalid. „Í þessu lagi koma fram dórískir tónar sem eru ekki það algengir í bandarísku poppi. Ég velti fyrir mér hvort þetta hafi eitthvað með það að gera að það er komið nýtt fólk inn á þing í Bandaríkjunum, þar er til dæmis Ilhan Omar sem er fyrsta múslimakona til að komast á þing. Kannski er mainstream-menningin í Bandaríkjunum að verða opnari fyrir þessu,“ segir Valur Brynjar heimspekingur.

Billie Eilish blandar saman ólíkum áhrifum á plötunni og bendir umsjónarmaður á að kannski séu þetta tímanna tákn að hin internetvædda kynslóð nái í sín áhrif hvaðan sem er. Jónína tekur undir þetta í víðara samhengi. „Ég held að þetta hljóti að vera þróunin. Sem tónlistarmaður að fást við sköpun þá hlustar þú á eitthvað sem höfðar til þín og þú vilt ekki gera nákvæmlega eins. Ef þú ert alæta á tónlist þá er alltaf eitthvað að sulla í undirmeðvitundinni sem kemur svo út þegar þú ert að skapa. Það er óhjákvæmilegt að þetta allt blandist saman. Kannski gerir Eilish það mjög meðvitað en ég er svo hvatvís að þetta kæmi allt óvart hjá mér,“ segir Jónína Björg.

„Ég er nú búin að vera að vanda mig í tvo daga við að segja Billie Eilish en ekki Billie Ellis. Ég var skömmuð fyrir að þekkja hana ekki,“ segir Alma Mjöll sem hafði ekki heyrt mikið um tónlistarkonuna. „Ég bý með þremur strákum og er elst og þegar ég sagði að ég þyrfti að hlusta á Billie Ellis fyrir föstudaginn þá sagði einn sambýlismanna minna: „Veistu ekki hver Billie Eilish er, er eitthvað að þér?“, honum fannst ég algjörlega glötuð að vita ekki hver þetta væri og ég hef aldrei fundið eins mikið fyrir aldri mínum eins og þessa stund,“ segir Alma sem verður 28 ára gömul í júní. „Mér fannst þetta skemmtileg uppgötvun, ég hefði líklegast aldrei leitað þetta uppi sjálf. Ég vissi ekki hvað hún væri gömul þegar ég fór að hlusta á þetta en þetta er svona vel pródúserað unglingapopp. Lögin eru svo mismunandi, þetta eru andstæðir pólar í lögunum. Mér fannst mjög skemmtilegt að hlusta á þetta, ég finn að ég tengi ekki alveg við það sem hún er að segja en ég ber mikla virðingu fyrir því,“ segir Alma Mjöll. 

Tengdar fréttir

Leiklist

„Nánast eins og kjaftshögg“

Kvikmyndir

Leikgleði í augljóslega ódýrri framleiðslu

Tónlist

Gotneskar martraðir Billie Eilish

Tónlist

Gotneskar martraðir Billie Eilish