Suðurnesjalína 2 verði loftlína að mestu

18.10.2019 - 11:35
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Landsnet leggur til að Suðurnesjalína 2 verði lögð að mestu í lofti en ekki jörð. Í niðurstöðum matsskýrslu vegna línunnar segir að það sé hagkvæmast og valdi minnstu jarðraski. Matsskýrslan bíður nú samþykkis hjá Skipulagsstofnun. Gert er ráð fyrir að framkvæmdir við línuna hefjist að nýju á næsta ári. Með línunni verði raforkuöryggi á Suðurnesjum aukið.

Skiptar skoðanir um leiðir og útfærslu

Í tilkynningu frá Landsneti segir að ekki séu skiptar skoðanir um mikilvægi þess að leggja línuna, heldur um leiðir og útfærslu. Málið á sér langan aðdraganda. Orkustofnun veitti Landsneti heimild til að leggja línuna árið 2013. Síðan hefur verið deilt um hvort leggja eigi línuna í jörð, líkt og landeigendur og náttúruverndarsamtök vilja, eða í lofti, líkt og staðið hefur til. Greint hefur verið frá því að kostnaður við að leggja línuna í jörð sé talsvert meiri.

Loftlínan umhverfisvænni 

„Allir valkostir vegna lagningar línunnar voru metnir út frá áhrifum á umhverfi, afhendingaröryggi, stefnu stjórnvalda, skipulagi sveitarfélaganna og kostnaði,“ segir Sverrir Jan Norðfjörð, framkvæmdastjóri þróunar- og tæknisviðs Landsnets. 

Í tilkynningunni segir að jarð- og loftlínur hafi ólík áhrif á náttúru, útivist og ferðaþjónustu. „Rask á óhreyfðu landi er meira af jarðstrengjum en línan mun meðal annars liggja um nútímahraun, sem nýtur sérstakrar verndar samkvæmt lögum. Áhrif loftlínu eru hins vegar fólgin í sjónrænum áhrifum og ásýnd umhverfisins ásamt hættu sem fuglum stafar af loftlínu,“ segir Sverrir Jan.

Matið leiði í ljós að loftlínan sé hagkvæmari og umhverfisvænni kostur í þessu tilfelli og valdi minna raski þar sem möstur línunnar verði að mestu samhliða Suðurnesjalínu 1 og þannig hægt að samnýta línuveginn. 

Markmiðið að bæta raforkuöryggi

Markmiðið með nýju línunni er að bæta afhendingaröryggi raforku á Suðurnesjum, sem eru „mikilvægt vaxtarsvæði með alþjóðaflugvellinum í Keflavík, ferðaþjónustu, stórum gagnaverum og annarri atvinnustarfsemi og hefur íbúum fjölgað mikið,“ segir í tilkynningunni. 

Suðurnesjalína 1 er eina tengingin við meginflutningskerfi raforku. Truflanir á línunni hafa valdið rafmagnsleysi á svæðinu. Í tilkynningunni segir að nýja línan og aukið raforkuöryggi styrki atvinnulíf og byggðaþróun á svæðinu.

Áður hefur verið greint frá því að línan sé forsenda fyrir nýtingu framtíðarvirkjunarkosta á Reykjanesskaga. Þórður Guðmundsson, þáverandi forstjóri Landsnets sagði það mikinn misskilning að tengja Suðurnesjalínu 2 við álversframkvæmdir. Tilgangur línunnar væri fyrst og fremst að tryggja raforkuöryggi á Suðurnesjum. Mikill misskilningur sé að tengja hana við álversframkvæmdir í Helguvík.

Áframhaldandi viðræður við landeigendur næsta skref

Matsskýrsla og athugasemdir vegna Suðurnesjalínu tvö bíða nú samþykkis hjá Skipulagsstofnun. Þegar samþykki liggur fyrir taka við áframhaldandi viðræður við landeigendur og sótt verður um framkvæmdaleyfi fyrir línunni. Skýrslan hefur þegar verið kynnt landeigendum og öðrum hagsmunaaðilum, svo sem fulltrúum sveitarfélaga og náttúruverndarsamtökum. 
 

 

 

Katrín Ásmundsdóttir
vefritstjórn
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi