Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Súðavíkurhlíð hefur verið lokað ellefu sinnum á árinu

Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RÚV
Súðavíkurhlíð hefur verið lokað ellefu sinnum það sem af er ári. Í fyrra var hins vegar einungis lokað þrisvar, þar af tvisvar í óveðrinu sem gekk yfir í desember.

Guðmundur Björgvinsson, yfirverkstjóri Vegagerðarinnar á Ísafirði, segir fátíðar lokanir í fyrra hafa verið töluvert frávik þar sem hafi verið með eindæmum snjólétt. Hann segir þó að þessi vetur sé einnig búinn að vera sérstakur þar sem aðallega var lokað vegna hvassviðris, en ekki snjóflóðahættu. Lokanir í Súðavíkurhlíð frá áramótum hafa varað allt frá sex klukkustundum og upp í heilu sólarhringana.

Þegar lokað er um hlíðina komast margir Súðvíkingar ekki til vinnu eða skóla sem þeir sækja á Ísafirði og get eins ekki sótt ýmsa nauðsynjaþjónustu. Til að mynda hefur þurft að grípa til sjúkraflutninga á sjó.

Bragi Þór Thoroddsen, sveitarstjóri Súðavíkurhrepps, segir það hafa gerst síðast í janúar.

„Það þurfti að senda björgunarskip frá Ísafirði til þess að sækja sjúkling hérna inn á Súðavík. Þetta er náttúrulega síður en svo spennandi kostur að fara sjóleiðina í vondu veðri. Ástand sjúklings er alveg nóg fyrir þó hann þurfi ekki að leggja á sig sjóveiki eða eitthvað álíka í framhaldi,“ segir hann.

Lokun á hlíðinni hefur einnig töluverð áhrif á norðanverða Vestfirði í heild sinni þar sem þá lokast einnig á samgöngur og flutninga til og frá Ísafirði, Bolungarvík, Flateyri, Suðureyri og Þingeyri. Áhrifin sýndu sig glöggt í janúar þegar matvöruverslanir fóru að verða uppiskroppa með mat eftir að hlíðin hafði verið meira og minna lokuð átta daga í beit.

Í samgönguáætlun er lagt upp með vegskála og varnir á veginum um hlíðina. Bragi telur það ekki ákjósanlegt og vill heldur sjá göng á Álftafjarðar og Skutulsfjarðar.

„Allavega að halda áfram með þær kannanir sem voru gerðar hérna. Það var búið að bora eitthvað og kanna bergið hérna. Einhverjar mælingar sem áttu sér stað upp á þá kosti sem eru í boði um að gera göng hérna á milli Álftafjarðar og Skutulsfjarðar,“ segir Bragi.