Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Styttist í opnun Sprengisandsleiðar

04.06.2016 - 19:08
Mynd: Ómar Ragnarsson / RÚV
Margir hálendisvegir eru mun snjóléttari í ár en á sama tíma í fyrra. Stefnt er að því að opna Sprengisandsleið 27. júní og er það hálfum mánuði fyrr en í fyrra.

Sprengisandur var á kaf í snjó 19. júní í fyrra þegar Ómar Ragnarsson flaug yfir hann og myndaði.  Vegurinn var ekki opnaður fyrir umferð fyrr en 10. júlí. Ómar flaug yfir svæðið á ný í fyrradag og þá leit það töluvert öðruvísi út. 

„Það er bara regin munur, það er svo miklu minni snjór núna,“ segir Ómar. Það sáust bara stöku skaflar á Sprengisandsleið. Ómar telur að svæðið verði snjólaust á skömmum tíma, þó muni taka einhvern tíma að bráðna skaflar. 

Það sama er að segja af Öskjuleið. Samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar er gert ráð fyrir að opna hana 20. júní og Sprengisandsleið viku seinna. En sömu sögu er ekki að segja austar. „Nei, þegar komið er austur fyrir ána Kreppu sem er rétt hjá Jökulsá á Fjöllum, þar er mesti snjór sem ég hef séð í marga áratugi,“ segir Ómar. 

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV