Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Stýrir 100 manna Minecraft-teymi hjá Microsoft

Mynd: Facebook / Facebook

Stýrir 100 manna Minecraft-teymi hjá Microsoft

21.05.2019 - 09:41

Höfundar

„Ferilskráin mín fer á eitthvað flakk inni í Microsoft og endar hjá Minecraft,“ segir Torfi Frans Ólafsson tölvuleikjahönnuður sem hóf feril sinn hjá OZ og starfaði um árabil hjá CCP. Hann er nú yfirhönnuður nýs Minecraft leiks og starfar í Seattle.

Hann bjóst alls ekki við því að fá starfið í fyrstu, og sagðist hafa þjáðst af svokölluðu blekkingaheilkenni (e. imposter syndrome). „En nokkrum mánuðum síðar er ég í fundarherbergi að sýna Bill Gates leikinn sem við erum að búa til. Þá er bara allt sett í gang og fjármagnað, svo við byrjum að ráða fólk í teymi og búa til fleiri prótótýpur. Við erum með svona 100 manns núna.“

Leikurinn sem þau eru að þróa var tilkynntur fyrir helgi, Minecraft Earth, sem er leikur fyrir farsíma sem styðst við svokallaða „viðbætta veruleika“-tækni. Hún felst í því að leikurinn notar myndavélina í snjallsímanum til að leggja Minecraft-grafík yfir raunveruleikann. Búist er við því að leikurinn fari í stórar notendaprófanir í sumar. „En við erum með prófanir þar sem krakkar sitja inni í gervistofu, þar sem er sófi og sjónvarp og stór spegill á einum veggnum. Hinum megin við spegilinn sitjum við tólf leikjahönnuðir og tæknimenn. Það eru myndavélar og hljóðnemar út um allt og myndavélar á gleraugum krakkanna sem fylgist með augnhreyfingum þeirra, sjáum hvað þau sjá á skjánum, og fylgjumst með þeim spila í tvær klukkustundir,“ segir Torfi Frans.

Torfi Frans segir að löngu áður en hann fékk starfið hafi hann þó myndað ákveðin tengsl við Minecraft-heiminn, hann hafi til dæmis leikið hann við syni sína og átt sérstaka reynslu fyrir þremur árum þegar hann fékk símtal um að faðir hans lægi við dauðans dyr. „Ég fer upp í næstu vél og flýg heim, mikið hugsi, sjö tíma flug og veit ekkert hvað ég á af mér að gera. Þá opna ég ferðatölvuna og ákvað að spila Minecraft til að róa hugann, öruggur staður og svona.“ Nokkrum mánuðum síðar skilja hann og kona hans og nokkrum mánuðum eftir það er hann kominn í vinnu hjá Minecraft. „Svo korteri eftir að ég fæ vinnuna greinist ég með krabbamein í blöðruhálskirtli. Þannig ég er að díla við fjóra hluti í einu.“ Honum líður þó vel í dag eftir að hafa farið í skurðaðgerð. Hann segir það gjörólíkt að veikjast í Bandaríkjunum og á Ísalndi, þar sé svo mikið af mismunandi aðferðum og læknum í boði og allt þurfi að greiða úr eigin vasa.

Torfi á tvo stráka á Íslandi þannig hann ferðast mikið yfir Atlantshafið. „Ég vinn í Seattle, en það er bara eins og að vera í Smugunni. Ég á ekkert sérlega mikið félagslíf þar. Ég fer í vinnuna átta á morgnana og stundum er ég ekkert að koma heim fyrr en 8, 9, 10 eða 11 á kvöldin.“ Á föstudögum flýgur hann svo til Los Angeles þar sem hann dvelst um helgar og sjöttu hverja viku flýgur hann svo til Íslands. „Mæti á fösudegi og sæki strákana í skólann, fer með þá á hljómsveitaræfingu, fótboltaæfingu, og bara að reyna að eiga eðlilega helgi. Mikið farið í sund og borðaðar pulsur. Svo fer ég með þá í skólann á mánudegi, fæ mér kaffi alltaf með sama vininum, og fer svo út á völl og er kominn í vinnuna á þriðjudegi. Á síðasta eina og hálfa ári er ég örugglega búinn að fara í meira en 100 flugferðir.“

Þrátt fyrir að vinna sjálfur við það að búa til tölvuleiki telur Torfi eðlilegt að foreldrar setji börnum sínum mörk í spiluninni. „Við enduðum á því að setja strákunum okkar reglur þar sem þeir spiluðu bara tölvuleiki um helgar. Af því að leikir í dag eru ekki allir hannaðir með hagsmuni barna að leiðarljósi. Fólk opnar jafnvel sálfræðibækur um fíknihegðun og hvernig er hægt að viðhalda henni, og byggir leiki á því. Foreldrar þurfa að fylgjast vel með því hvað börnin þeirra eru að spila,“ segir Torfi Frans að lokum.

Rætt var við Torfa Frans Ólafsson í Sunnudagssögum þar sem hann sagði frá uppvextinum í Reykjavík, Kópavogi, Akureyri og Stykkishólmi, tölvuáhuganum og störfunum hjá Oz, CCP og Microsoft. Hægt er að hlusta á þáttinn í fullri lengd í spilaranum.

Tengdar fréttir

Íþróttir

Fylkir stofnar rafíþróttadeild

Innlent

Leikjafyrirtæki ekki krútt heldur alvöru virði

Innlent

CCP selt til Suður Kóreu fyrir 46 milljarða

Erlent

Microsoft kaupir Minecraft á 300 milljarða