Styður að vanhæfismáli Arnfríðar verði áfrýjað

15.04.2018 - 18:58
Mynd: RÚV / RÚV
Ríkissaksóknari segir að það sé mjög mikilvægt að fá úrlausn Hæstaréttar um hvort skipan Arnfríðar Einarsdóttur í embætti dómara við Landsrétt hafi verið lögum samkvæmt. Í bréfi til Hæstaréttar styður Ríkissaksóknari að veitt verði leyfi til að áfrýja máli þar sem Arnfríður var dómari.

Í lok mars dæmdi Landsréttur karlmann í sautján mánaða fangelsi fyrir margvísleg umferðarlagabrot og brot á reynslulausn. Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, verjandi mannsins, hafði áður krafist þess að Arnfríður Einarsdóttir, einn þriggja dómara í málinu, viki sæti vegna vanhæfis.

Arnfríður var einn fjögurra dómara sem Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra skipaði í Landsrétt í stað fjögurra af þeim fimmtán dómurum sem sérstök hæfisnefnd mat hæfasta. Þeirri kröfu var hafnað af Landsrétti og vísað frá í Hæstarétti.

Vilhjálmur sótti hins vegar um áfrýjunarleyfi vegna dómsmálsins til Hæstaréttar. Hann telur mikilvægt að æðsta dómstig landsins skeri úr um hvort skipan Arnfríðar hafi verið lögum samkvæmt. Það er alls ekki sjálfgefið, að Hæstiréttur veiti slíkt leyfi og þar með alls óvíst hvort málið ratar þangað.

Eykur lýkur á áfrýjun

Jón H.B. Snorrason, saksóknari í málinu, hefur sent Hæstarétti umsögn um málið, þar sem fram kemur álit hans á því hvort veita eigi áfrýjunarleyfið.

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu var bréfið póstlagt á föstudaginn og það er því ekki komið í hendur starfsmanna Hæstaréttar. Fréttastofa hefur bréfið hins vegar undir höndum.

Þar kemur fram að ríkissaksóknari telji að niðurstaða Landsréttar um refsingu og sviptingu ökuréttar ákærða í málinu, sé í samræmi við dóma í sambærilegum málum. Því sé engin ástæða til að mæla með áfrýjun á þeim forsendum. Síðast í bréfinu segir Jón H.B. hins vegar:

„Ríkissaksóknari fellst hins vegar á að mjög mikilvægt sé að fá úrlausn Hæstaréttar um það álitaefni sem ákærði fjallar um til rökstuðnings kröfu sinni um ómerkingu dóms Landsréttar, og að rök standi því til að heimila ákærða að áfrýja dómi Landsréttar í málinu.“

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu eykur þetta álit Ríkissaksóknara mjög líkurnar á því, að áfrýjunarleyfið verði veitt og þar með að Hæstiréttur taki afstöðu til þess hvort skipan Arnfríðar hafi verið lögum samkvæmt.