Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Styðja ekki frumvarp um jafnlaunavottun

05.04.2017 - 22:32
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Andstaða er við frumvarp félagsmálaráðherra um jafnlaunavottun meðal nokkurra þingmanna Sjálfstæðisflokksins. Formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, styður ekki málið.

Frumvarp félagsmálaráðherra um jafnlaunavottun var lagt fram á Alþingi í vikunni. Þar er kveðið á um skyldu fyrirtækja og stofnana, þar sem starfa 25 starfsmenn eða fleiri, að fá vottun þess efnis að þar ríki launajafnrétti. Málið nýtur ekki stuðnings allra stjórnarþingmanna, Óli Björn Kárason, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, styður málið ekki: „Það hefur legið fyrir alveg frá upphafi, frá því við lögðum upp í þessa vegferð, þessi ríkisstjórn að ég myndi ekki styðja þetta frumvarp. Hvers vegna ekki?  mér finnst að það sé of langt gengið. Þetta eru íþyngjandi ákvæði sem eru óþörf. Við erum með lög um jafna stöðu karla og kvenna. Þar sem er refsivert og ólöglegt, varðar sektum og jafnvel þyngri refsingum að mismuna fólki á grundvelli kyns. Við erum líka með mjög skýr ákvæði í stjórnarskránni um jafna stöðu allra.“

Andstaða án afleiðinga

Fréttastofa hefur heimildir fyrir því að fleiri þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafi sett fyrirvara um stuðning sinn við málið, meðal annars Brynjar Níelsson. Ríkisstjórnarflokkarnir styðjast við eins manns meirihluta en það má búast við að þingmenn úr stjórnarandstöðunni veiti þessu máli brautargengi. „Það að þið styðjið ekki málið, sem er stjórnarfrumvarp og áhersla lögð á það í stjórnarsáttmála. Mun þetta draga einhvern dilk á eftir sér? nei, engan“.