Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Stundum ógnandi að vera innflytjandi á Alþingi

21.01.2018 - 19:45
Frá þingsetningu 20016.
Nichole Leigh Mosty var framsögumaður nefndarálits meirihlutans Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Nichole Leigh Mosty, fyrrverandi þingmaður Bjartrar framtíðar segir að hún hafi upplifað mikið tómarúm eftir að Björt framtíð féll af þingi í vetur, eftir að hafa ákveðið að slíta stjórnarsamstarfinu við Sjálfstæðisflokk og Viðreisn. 

„Ég upplifði þetta sem stóra falleinkunn. Mér leið eins og einhver hefði kýlt mig í magann. Ég átti ekki að gera þetta svona persónulegt en ég lagði mig alla í þetta starf,“ segir Nichole en hún var gestur Viktoríu Hermannsdóttur í Sunnudagssögum á Rás 2 í dag. 

Tveir þingmenn sátu á þingi á síðasta kjörtímabili sem voru af erlendu bergi brotnir. Nichole upplifði sig stundum einangraða á þinginu vegna þess að hún er innflytjandi og segist hafa fundið fyrir miklum fordómum í starfi sínu sem þingmaður. „Þetta var skemmtilegt en stundum ógnandi. Það voru nokkrir sem fannst það vera til skammar að ég væri á þeirra þjóðþingi og vildu ekki hafa mig þar,“ segir Nichole.

Nichole upplifði erfiðleika vegna íslenskunnar. Nichole ákvað að í stað þess að láta prófarkalesa allt sem hún gæfi frá sér vildi hún vera fyrirmynd fyrir aðra innflytjendur. „Ég vildi ekki mála falska mynd af mér og láta lesa yfir allt sem ég sagði. Það er fullt af fólki sem er að glíma við sömu hluti og ég. Fólk á að hætta að vera með þessa fordóma og styðja við okkur. Það eru bara 340 þúsund Íslendingar sem tala íslensku en þúsundir af okkur sem langar að tala þetta mál. Ég móðgast ekkert að vera leiðrétt en það er hvernig ég er leiðrétt.“ segir Nichole.