Með lögum um kynrænt sjálfræði er réttur fólks til að breyta opinberri kynskráningu sinni í samræmi við eigin upplifun staðfestur. Markmið laganna er að virða og styrkja sjálfsákvörðunarrétt hvers einstaklings þar sem eigin skilningur á kynvitund sé sá besti.
Í lögum um mannanöfn segir nú að stúlku skuli gefið kvenmannsnafn en dreng karlmannsnafn. Ekkert eiginnafn getur talist vera bæði karlmanns- og kvenmannsnafn nema hefð sé fyrir því að gefa það báðum kynjum. Ný lög um kynrænt sjálfræði fela í sér breytingar og rýmkun á lögum um mannanöfn. Áður gat kona valið sér nafn úr skrá yfir kvenmannsnöfn og karl valið sér nafn af lista karlmannsnafna. Ef kona vildi heita karlmannsnafni þurfti hún að senda beiðni þess efnis til mannanafnanefndar. Með nýjum lögum verða nöfn ókyngreind. Kona getur þar með tekið sér nafnið Ari til að mynda, sem áður var einungis mögulegt fyrir karlmenn.
Alex og Blær færu ekki fyrir dómstóla í dag
Dæmi eru um að úrskurðir mannanafnanefndar sem voru byggðir á kyngreiningu nafna hafi ratað til dómstóla.
Héraðsdómur felldi í mars úr gildi úrskurð mannanafnanefndar sem hafði bannað stúlku að bera nafnið Alex. Nafninu hafnaði nefndin fyrir sex árum því hún taldi það karlmannsnafn. Dæmi væru um að það væri notað sem kvenmannsnafn.
Árið 2013 fór frétt um íslenska stúlku sem fékk ekki að heita Blær eins og eldur í sinu um netheima. Mannanafnanefnd úrskurðaði þá að Blær Bjarkardóttir þyrfti að skipta um nafn þar sem að henni hafi ranglega verið gefið karlmannsnafn. Blær stefndi íslenska ríkinu fyrir dómstóla. Héraðsdómur Reykjavíkur ógilti úrskurð mannanafnanefndar og komst að þeirri niðurstöðu að Blær fengi að bera það nafn sem henni var gefið.