Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Stúlkur mega nú heita Ari og drengir Anna

Mynd með færslu
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir

Stúlkur mega nú heita Ari og drengir Anna

21.06.2019 - 08:05

Höfundar

Ný lög um kynrænt sjálfræði, sem samþykkt voru á Alþingi á þriðjudag, fela í sér breytingar á lögum um mannanöfn. Fellt verður út ákvæði í lögum um mannanöfn sem segir að stúlku skuli gefið kvenmannsnafn og dreng karlmannsnafn. Skráning nafna í nafnaskrá verður þar með ekki lengur kyngreind og ætla má að hver sem er, óháð kyni, geti tekið sér hvaða nafn sem er á skrá, og breytt skráningu hjá Þjóðskrá.

Með lögum um kynrænt sjálfræði er réttur fólks til að breyta opinberri kynskráningu sinni í samræmi við eigin upplifun staðfestur. Markmið laganna er að virða og styrkja sjálfsákvörðunarrétt hvers einstaklings þar sem eigin skilningur á kynvitund sé sá besti. 

Í lög­um um mannanöfn seg­ir nú að stúlku skuli gefið kven­manns­nafn en dreng karl­manns­nafn. Ekk­ert eig­in­nafn getur tal­ist vera bæði karl­manns- og kven­manns­nafn nema hefð sé fyr­ir því að gefa það báðum kynj­um. Ný lög um kynrænt sjálfræði fela í sér breytingar og rýmkun á lögum um mannanöfn. Áður gat kona valið sér nafn úr skrá yfir kvenmannsnöfn og karl valið sér nafn af lista karlmannsnafna. Ef kona vildi heita karlmannsnafni þurfti hún að senda beiðni þess efnis til mannanafnanefndar. Með nýjum lögum verða nöfn ókyngreind. Kona getur þar með tekið sér nafnið Ari til að mynda, sem áður var einungis mögulegt fyrir karlmenn. 

Alex og Blær færu ekki fyrir dómstóla í dag

Dæmi eru um að úrskurðir mannanafnanefndar sem voru byggðir á kyngreiningu nafna hafi ratað til dómstóla. 

Héraðsdómur felldi í mars úr gildi úrskurð mannanafnanefndar sem hafði bannað stúlku að bera nafnið Alex. Nafninu hafnaði nefndin fyrir sex árum því hún taldi það karlmannsnafn. Dæmi væru um að það væri notað sem kvenmannsnafn. 

Árið 2013 fór frétt um íslenska stúlku sem fékk ekki að heita Blær eins og eldur í sinu um netheima. Mannanafnanefnd úrskurðaði þá að Blær Bjarkardóttir þyrfti að skipta um nafn þar sem að henni hafi ranglega verið gefið karlmannsnafn. Blær stefndi íslenska ríkinu fyrir dómstóla. Héraðsdómur Reykjavíkur ógilti úrskurð mannanafnanefndar og komst að þeirri niðurstöðu að Blær fengi að bera það nafn sem henni var gefið.

Blær Bjarkardóttir
 Mynd: Fréttir
Blær Bjarkardóttir hefði fengið að heita Blær í dag án vandkvæða.

Má heita Sigríður sama hvers kyns

Inga Helga Sveinsdóttir, lögfræðingur hjá Þjóðskrá Íslands, segir að hingað til hafi mannanafnaskrá Þjóðskrár verið skipt í eiginnöfn kvenna og eiginnöfn karla. 

„Karlmenn gátu borið þau eiginnöfn sem eru flokkuð í karlmannsnöfn og konur kvenmannsnöfn, þessi breyting hefur það í för með sér að einungis verður einn flokkur sem allir geta valið úr. Þannig að drengurinn þinn getur heitið kvenmannsnafni og öfugt.“

Með nýjum lögum gefst fólki með hlutlausa kynskráningu auk þess kostur á að sleppa kyngreiningunni -dóttir og -son, úr kenninafni. Hægt að sleppa endingu alfarið í kenninafni eða taka upp endinguna -bur. Hins vegar er einungis hægt að breyta kenninafni hafi viðkomandi breytt skráningu kyns síns. Kona getur því ekki borið kenninafn með -son og karlmaður ekki kenninafn með -dóttir. Þá getur einungis fólk með hlutlausa skráningu tekið sér endinguna -bur. 

Mannanafnanefnd hefur ekki komið saman á fundi eftir samþykkt laganna. Auður Björg Jónsdóttir, lögmaður sem á sæti í nefndinni, segir að enn eigi því eftir að taka saman hvað breytingin hafi í för með sér fyrir störf nefndarinnar.

„Stærsta breytingin er að fellt er út ákvæði í lögunum sem segir að stúlku skuli gefa kvenmannsnafn og dreng skuli gefa karlmannsnafn. Þannig að drengurinn þinn getur heitið kvenmannsnafni og öfugt.“

Breytingin eigi bæði við um þá sem gefi börnum sínum nafn, og fullorðna sem vilja taka sér nýtt nafn. 

„Já, ég myndi telja að svo væri. Segjum bara nafnið Sigríður, þá má núna gefa barni þetta nafn sama af hvaða kyni barnið er. Það sama hlýtur að gilda um einstakling sem vill breyta nafninu sínu - ef það er til á mannanafnaskrá þá getur hann tekið upp það nafn og það þarf ekki að fara í gegnum mannanafnanefnd. Þjóðskrá getur samþykkt nöfn af mannanafnaskrá og því þarf viðkomandi ekki að leita til mannanafnanefndar lengur hvað þetta varðar.“

Hún segir þetta óneitanlega hafa í för með sér breytingar á störfum nefndarinnar. „Þetta hefur náttúrulega áhrif á nefndina að því leyti að það verða kannski færri mál, þó það séu kannski ekki mörg mál sem koma til okkar á hverju ári þar sem að kona vill heita karlmannsnafni, til að mynda.“

„Stór breyting“ á lögum um mannanöfn

Aðalsteinn Hákonarson, doktorsnemi í íslenskri málfræði og formaður mannanafnanefndar, segir breytinguna stóra fyrir lög um mannanöfn. Hlutverk mannanafnanefndar sé hins vegar að fylgja lögum og því geti hann ekki tjáð sig um það hvort nefndarfólk sé mótfallið breytingunni eða telji hana brjóta í bága við íslenska málstefnu. 

Spurður hvort það að fella út kyngreiningu nafna hafi það í för með sér að hægt sé að taka sér nafn sem sé málfræðilega hvorugkyns, sem opni þar með dyrnar fyrir nýjan flokk nafna, segist Aðalsteinn ekki hafa skoðað það sérstaklega. Lögin hafi enn ekki tekið gildi og því hafi ekki reynt á þetta í framkvæmd.

Tengdar fréttir

Þingmál

Segir skýr mannréttindabrot í nafnalögum

Jafnréttismál

Stórt skref í réttindabaráttu transfólks

Innlent

„Ég ætla að heita Kona“

Innlent

Lagði íslenska ríkið og má heita Alex Emma